Forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leiðarljós íslenskra stjórnvalda hefur frá upphafi verið að forgangsraða heilbrigði þjóðarinnar og því hefur verið gripið til töluverðra sóttvarnaráðstafana til að hefta útbreiðslu faraldursins, meðal annars vegna þess að hann er nýr og enn ekki alveg fyllilega ljóst hve skæð þessi veiki er,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á rafrænum flokksráðsfundi VG nú síðdegis.

Katrín sagði að kórónuveirufaraldurinn, sem geisað hefur mánuðum saman um víða veröld, hefði áhrif á líf okkar allra hér landi.

Annað leiðarljós hefur verið að lágmarka samfélagsleg og efnahagsleg áhrif faraldursins bæði til skemmri og lengri tíma þannig að þau hafi sem minnst áhrif á lífgæði almennings, bæði núna strax og þó ekki síður til langtíma,“ sagði Katrín.

Stórar og mikilvægar ákvarðanir teknar

Forsætisráðherra segir að það hafi verið stór og mikilvæg samfélagsleg ákvörðun að halda skólum landsins opnum. Stjórnvöld hafi ekki viljað feta þá braut sem sums staðar varð þar sem börn voru lokuð inni vikum saman þar sem útgöngubann ríkti. 

Þetta var stór samfélagsleg ákvörðun sem mun skipta miklu fyrir börn og ungmenni en hún var líka efnahagsleg því hún tryggði það að fólk gat áfram sótt vinnu,“ sagði Katrín.

Önnur stór og mikilvæg samfélagsleg og efnahagsleg ákvörðun að mati forsætisráðherra felst í nýrri fjármálastefnu sem lögð hefur verið fram á Alþingi. Þar hafi verið kynnt að ráðast ekki í niðurskurð hjá ríkinu, heldur standi stjórnarflokkar vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfið sem hefur þó áður verið eflt mikið á þessu kjörtímabili. 

Katrín nefndi enn fremur hlutastarfaleiðina, sumarstörf fyrir námsmenn, menntatækifæri fyrir atvinnuleitendur, lengingu á tekjutengda tímabilinu og framlengingu launa í sóttkví. 

Stjórnvöld muni kynna áframhaldandi fjárfestingarátak

Katrín sagði að baráttunni við veiruna væri hvergi nærri lokið. „En þegar henni lýkur er okkar markmið að hægt verði að segja að saman hafi okkur tekist að vernda heilsu, efnahag og frelsi okkar þannig að þjóðlífið allt verði fyrir sem minnstum skaða og þjóðinni takist að vinna hratt til baka það sem tapast hefur í þessum faraldri. Í opnu lýðræðissamfélagi er mikilvægt að fram fari umræða um ólíka þætti þessarar baráttu og eðlilegt að það sé rætt með gagnrýnum hætti hvernig gripið er inn í daglegt líf fólks og hvernig efnahagslífi þjóðarinnar verði sem best borgið,“ sagði Katrín.

Hún greindi frá því að ríkisstjórnin muni kynna áframhaldandi fjárfestingaátak samhliða fjárlögum og fjármálaáætlun þar sem ríkissjóði verður beitt af fullu afli til að skapa störf og auka verðmætasköpun.

„Markmiðið er skýrt: Við ætlum að vaxa út úr kreppunni og standa um leið vörð um heilbrigðis- og velferðarkerfi og tryggja þeim sem standa frammi fyrir atvinnumissi ný tækifæri, ýmist til að sækja sér menntun eða taka að sér ný störf.“

mbl.is

Bloggað um fréttina