Ekkert eyland er kemur að netöryggi

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland hefur ekki verið nægilega vakandi þegar kemur að netöryggismálum, ef marka er orð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata, spurði utanríkisráðherra um mögulegar netnjósnir Bandaríkjanna um Íslendinga í kjölfar þess að leyniþjónusta danska hersins hafi veitt öryggisstofnun Bandaríkjanna aðgang að dönskum ljósleiðurum.

Öll fjarskipti Íslendinga fari í gegnum þrjá sæstrengi sem liggi í gegnum danskt yfirráðasvæði, og snerti þetta því Íslendinga með beinum hætti.

Spurði Smári hvort utanríkisráðherra hafi rætt við annað hvort dönsk eða bandarísk yfirvöld um téðar njósnir Bandaríkjamanna og hvort hann hafi leitað sér upplýsinga um áhættuna sem því fylgi.

Íslendingar ekki nægilega vakandi

Í svari sínu sagði utanríkisráðherra að þetta mál yrði skoðað, og að hann hafi rætt við norræna kollega sína um netöryggismál.

„Mér finnst við ekki vera nægilega vakandi þegar kemur að þeim málaflokki,” sagði Guðlaugur, en hann minnist á það að Ísland sé eina ríkið í Atlandshafsbandalaginu sem tekur ekki þátt í setrinu í Tallin, og eina norræna ríkið sem tekur ekki þátt í setrinu í Helsinki.

„Ég tel að það ætti að vera forgangur hjá okkur að sinna þessu betur,“ sagði Guðlaugur. „Við erum ekkert eyland þegar kemur að þessum málum.

Þá vakti hann athygli á skýrslu Björns Bjarnarsonar, fyrrverandi ráðherra, þar sem sérstaklega er tekið á þessum málum.

Smári McCarthy, þingmaður Pírata.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert