Sagði borgarmeirihlutann ulla á ríkisstjórnina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi að ríkisstjórnin hefði látið hafa sig í að undirrita samgöngusáttmála við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu til að „greiða nokkurs konar lausnargjald í formi ótrúlega hás styrks frá ríkinu til framkvæmda vegna borgarlínunnar“.

Þannig hefði átt að losna um aðrar framkvæmdir sem lengi hefði verið beðið eftir.

Hann sagði meirihluta borgarstjórnar í Reykjavík hafa ullað á ríkisstjórnina því ekki stæði til að virða þann hluta samkomulagsins sem snýr meðal annars að Sundabraut. Spurði hann Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvernig hann ætlaði að bregðast við þessu. Ljóst væri að svigrúmið fyrir verkefni á borð við borgarlínuna ætti að nýta í „verkefni sem eru hagkvæm en ekki óhagkvæm eilífðarvandamál“.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sýn á skilvirkara samgöngukerfi 

Bjarni vísaði því á bug að ríkisstjórnin hefði látið hafa sig í undirritun samgöngusáttmálans og sagði ríkisstjórnina hafa þá sýn að það skipti máli að gera stórátak í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Hann sagði öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa sameinast um ákveðna sýn á skilvirkara samgöngukerfi.

Hann sagði mikilvægt að bjóða upp á öflugar og greiðar almenningssamgöngur og umferðarmannvirki sem þjónuðu íbúum höfuðborgarsvæðisins. Þau úrlausnarefni biðu félags ríkisins og sveitarfélaganna um framkvæmdirnar og fjármögnun þeirra.

Sigmundur steig aftur í pontu og minnti ráðherra á að erfiðlega hefði gengið að fá þingmeirihlutann til að falllast á að sett yrðu inn ákvæði til að tryggja að ríkið greiddi ekki fyrir borgarlínuna nema staðið yrði við ákveðna hluti, m.a. Sundabrautina.

Bjarni sagði að í þessum mánuði yrði lokið við stofnun félagsins og þess biðu fjölmörg úrlausnarefni til að greiða úr umferðarhnútum. Nefndi hann umferðarmannvirkin gatnamót á Bústaðavegi, Hringbraut og Miklubraut.

mbl.is