Klakinn brýtur sér leið út í hafið

Þegar horft er yfir Jökulsárlón sést vel hvernig ísjakarnir úr Breiðamerkurjökli hrannast upp við brúna yfir 500 metra langa jökulána sem liggur frá lóninu út á haf. Þeir minna helsta á væna biðröð myndaða með séríslenskum hætti í hverfi 101 um helgar áður en kórónuveiran setti strik í reikninginn. 

Það er vel skiljanlegt að staðurinn hafi heillað í Hollywood en atriði í hvorki meira né minna en tveimur James Bond-myndum hafa verið tekin upp á svæðinu; hinni stórgóðu A View To A Kill og hinni afleitu Die Another Day, einni af þessum með náunganum í Mamma Mia! Þá var svæðið notað í Tomb Raider-mynd, hafi einhver séð hana, og líka í kvikmynd um dimmraddaðan Leðurblökumann.

Í þessu myndskeiði er ekki að finna neinar byssur og í því er ekki einn bílaeltingaleikur. Bara Jökulsárlón í allri sinni dýrð á sólríkum sumardegi í júlí.

Myndskeiðið er tekið með dróna en notkun þeirra innan Vatnajökulsþjóðgarðar er háð því að fá leyfi hjá þjóðgarðsverði. 

Ísjakarnir hrannast upp við ána á leið út á haf.
Ísjakarnir hrannast upp við ána á leið út á haf. Skjáskot úr myndskeiðinu.
mbl.is