Verða göngugötur í allan vetur

Tímabundnum göngugötum í miðbænum verður framlengt fram til næsta sumars.
Tímabundnum göngugötum í miðbænum verður framlengt fram til næsta sumars. Eggert Jóhannesson

Skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar samþykkti í vikunni að framlengja tímabundnar göngugötur í miðborginni til 1. maí. Upphaflega var áformað að lokað yrði frá 5. júní til 1. október í ár. Um er að ræða Bankastræti, hluta Laugavegar og efsta hluta Vatnsstígs.

Í fundargerð ráðsins kemur fram að þær Hildur Björnsdóttir og Katrín Atladóttir, fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, hafi setið hjá við atkvæðagreiðsluna, en Ólafur Kr. Guðmundsson, einnig fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, greiddi atkvæði gegn tillögunni. Þá lýstu áheyrnarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins óánægju sinni með þessa ráðstöfun.

Meirihluti Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata sagði í bókun sinni að þetta væri gert þar sem kannanir sýndu að meirihluti íbúa væri jákvæður gagnvart göngugötum og þeir sem oftast heimsæktu göngugöturnar væru ánægðastir.

Þær götur sem tillagan á við eru þær sem eru …
Þær götur sem tillagan á við eru þær sem eru appelsínugular á kortinu. Hefur tímabundinni lokun þeirra fyrir bílaumferð verið framlengt til 1.maí 2021. Gulu göturnar eru varanlega lokaðar bílaumferð.

Í bókun áheyrnarfulltrúa Miðflokksins segir að um sé að ræða algjöran forsendubrest. „Borgarstjóri og meirihlutinn tekur einhliða ákvörðun um lokun Laugavegarins allt árið um kring einungis 21 degi fyrir fyrirhugaða opnun fyrir bílaumferð. Fyrirvarinn er enginn. 30 milljónum var eytt í sérstakt kynningarátak á þessu svæði í sumar og tilgangurinn var að „gæða miðbæinn lífi“. Nú er ljóst að þeim peningum var fleygt þráðbeint út um gluggann en gæluverkefnin þurfa sitt.“ Segir þar að ákvörðunin komi eins og þruma úr heiðskíru lofti og að búið sé að skella Laugaveginum í lás til framtíðar án nokkurs samráðs við rekstraraðila.

Í bókun áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins segir að afar óskynsamlegt sé að framlengja tímabundna lokun göngugatna í borginni. „Bærinn er líflaus nú og með því að opna aftur göturnar sem um ræðir eins og ráð var fyrir gert glitti í smá von um að fleiri myndu vilja heimsækja hann. Nú er aðeins um Íslendinga að ræða þar sem engir ferðamenn eru en Íslendingar koma ekki í bæinn.“ Kemur jafnframt fram í bókuninni að þetta muni hafa slæm áhrif fyrir rekstraraðila í miðbænum. „Hvert er markmið skipulagsyfirvalda með steindauðum göngugötum nú þegar vetur gengur í garð með vályndum veðrum? Þetta mun fara endanlega með marga, þá sem sáu fyrir sér þann draum að götur opnuðust í haust. Nú er sá draumur úti og þeir munu endanlega loka ef þetta gerist. Næstu mánuði mun mörgum blæða út.“

mbl.is