Brot tilkynnt með nýjum hnappi

Hægt er að smella á hnappinn, sem er merktur með …
Hægt er að smella á hnappinn, sem er merktur með rauðum hring, til þess að tilkynna brot á sóttvarnarreglum. Skjáskot/Covid.is

Hægt er að tilkynna sóttvarnarbrot í gegnum vefsíðu almannavarna, covid.is, í gegnum sóttvarnarbrotahnapp sem settur var inn á vefinn um helgina. Með einum smelli er tilkynnanda vísað á skráningarform sem fyllt er út með upplýsingum um meint sóttvarnarbrot og tilkynningin send á viðeigandi lögregluumdæmi.

Vilja einfalda boðleiðir

Jóhann K. Jóhannsson, samskiptastjóri Almannavarna, segir að hnappnum hafi verið komið fyrir til þess að einfalda boðleiðir og auka þjónustu við borgarana, þar sem tilkynningar um brot á sóttvarnarreglum hafi borist allvíða.

„Við vorum að fá tilkynningar eftir allskyns leiðum. Við erum að tryggja að þetta fari bara í einn farveg,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Spurður segir hann að tilkynningum hafi ávallt fjölgað þegar reglur eru hertar en of snemmt er að segja til um hvort tilkoma hnappsins verði til þess að tilkynningum fjölgi. 

Oft ekki um brot að ræða

Nefnir hann að margar tilkynningar sem berast eigi ekki við og þá sé vanþekkingu á regluverkinu um að kenna.    

Til dæmis séu verslanir ekki alltaf ábyrgar fyrir því að viðskiptavinir standi of nálægt hvorum öðrum, þrátt fyrir að þar sé um brot að ræða. Að stórum hluta sé það í höndum fólks að biðja næsta mann um að virða eins metra regluna. 

„Eins er algengt að fólk telji það brott á sóttvarnarreglum að fara í göngutúr þegar þú ert í sóttkví. Þá er verið að rugla henni saman við einangrun,“ segir Ásgeir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert