Endurreisnin byggi á grænum lausnum

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sigríður Auður Arnardóttir, …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Sigríður Auður Arnardóttir, ráðuneytisstjóri umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, á OECD fjarfundi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir mikilvægt að tryggja að endurreisn efnahags og samfélags eftir Covid-19 faraldurinn byggi á grænum lausnum. Þetta sagði Guðmundur á fundi umhverfis- og fjármálaráðherra OECD í dag, og fjallað er um á vef ráðuneytisins. 

Þar segir einnig, að viðbrögð íslenskra stjórnvalda við faraldrinum séu með sterkum grænum áherslum, m.a. sé gert ráð fyrir enn hraðari uppbyggingu innviða fyrir orkuskipti á sjó og landi og aukinni kolefnisbindingu með landgræðslu og skógrækt, hraðari innleiðingu hringrásarhagkerfis, endurheimt vistkerfa og nýsköpun.

Efnahags- og framfarastofnunin, OECD, stendur fyrir fundaröð ráðherra um ákveðin áherslumál í aðdraganda ráðherrafundar stofnunarinnar í haust. Á fundinum í dag var sérstaklega rætt um umhverfismál í tengslum við áform um endurræsingu efnahagslífsins eftir faraldurinn. Fundurinn fór fram í gegnum fjarfundabúnað.

„OECD segir að nú sé einstakt tækifæri til þess að samþætta grænar áherslur í uppbyggingu efnahagslífsins, svo árangur náist til langs tíma. OECD metur m.a. að niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti hafi numið 582 milljörðum Bandaríkjadala árið 2019 á heimsvísu. Nauðsynlegt sé að draga úr slíkum niðurgreiðslum og beina fjármagni í endurnýjanlega orkugjafa. Hrein orkuskipti geti skapað störf; öflug uppbygging endurnýjanlegrar orku geti skapað um 40 milljónir starfa á heimsvísu á komandi áratugum. Þá þurfi umskiptin að vera sanngjörn og útfærð með þeim hætti að ekki bitni á þeim fátækari í samfélaginu,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert