Hámu á Háskólatorgi lokað vegna smits

Upp hefur komið staðfest smit kórónuveirunnar í Hámu, matsölu Háskóla Íslands. Í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis hefur verið gripið til allra nauðsynlegra ráðstafana til að hrindra útbreiðslu smitsins, eftir því sem fram kemur í tölvupósti sem sendur var á nemendur og starfsfólk háskólans í kvöld. 

Í þeim aðgerðum sem gripið hefur verið til felst að starfsfólk Hámu á Háskólatogi fer nú í sóttkví og sýnatöku. Lokað verður í Hámu á Háskólatorgi og á salatbar út vikuna á meðan beðið er eftir niðurstöðum úr sýnatöku hjá starfsfólki. 

Háma verður áfram opin í Tæknigarði, Odda, Öskju, Læknagarði, Eirbergi, Þjóðarbókhlöðunni og í Stakkahlíð. Þá verður áfram opið í Stúdentakjallaranum. Ekki verður boðið upp á heitan mat og súpu í Hámu fyrr en hún opnar aftur á Háskólatorgi samkvæmt póstinum. 

Greint var frá því fyrr í dag að Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sé kominn í sóttkví ásamt tveimur starfsmönnum Aðalbyggingar eftir að smit kom upp hjá starfsmanni Aðalbyggingarinnar um helgina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert