Rektor og tveir starfsmenn HÍ í sóttkví

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, er kominn í sóttkví ásamt tveimur starfsmönnum Aðalbyggingar en um helgina var staðfest COVID-19-smit hjá starfsmanni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands, líkt og greint er frá í pósti sem rektor sendi nemendum og starfsfólki fyrr í dag.

„Gripið hefur verið til allra nauðsynlegra ráðstafana í samstarfi við smitrakningarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis til að hindra útbreiðslu smitsins og gæta þannig fyllsta öryggis starfsfólks og nemenda. Smitrakningarteymið hefur haft samband við alla sem þurfa að fara í sóttkví og eru það rektor og tveir aðrir starfsmenn í Aðalbyggingu. Starfsstöðvar þeirra sem eru í sóttkví hafa verið sótthreinsaðar rækilega“, skrifar rektor í póstinum. 

Minnir á sálfræðiþjónustu

„Þetta sýnir okkur að þótt nýsmitum fari til allrar hamingju fækkandi innanlands er faraldrinum langt í frá lokið. Ég vil því hvetja ykkur öll, kæra samstarfsfólk og nemendur, til að nota rafræna kosti til fundarhalda og fylgja reglum sóttvarnaryfirvalda í einu og öllu. Gætum áfram fyllsta hreinlætis og höldum að minnsta kosti eins metra lágmarksbili á milli okkar. Ef við finnum fyrir minnstu einkennum eigum við í öllum tilvikum að halda okkur heima.“

Jón Atli minnir starfsfólk þar á að ef það finni fyrir vanlíðan vegna faraldursins sé boðið upp á stutt fjarfundarviðtöl við sérfræðinga hjá Auðnast. Hann minnir einnig á gjaldfrjálsa sálfræðiþjónustu sem nemendum býðst.

mbl.is