Afnám reglugerðar skref í átt að málamiðlun

Hælisleitendur fá matarpakka eftir að eldur kviknaði í flóttamannabúðunum Moria …
Hælisleitendur fá matarpakka eftir að eldur kviknaði í flóttamannabúðunum Moria á eyjunni Lesbos. AFP

Afnám Dyflinnarreglugerðarinnar er skref en ekki endanleg niðurstaða í átt að málamiðlun vegna flóttamannavandans í Evrópu.

Þetta segir Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, spurður út í tíðindi gærdagsins þegar forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins tilkynnti um afnám reglugerðarinnar.

Erfiðleikar eftir stríðið í Sýrlandi

Hann segir helsta galla reglugerðarinnar hafa orðið mjög greinilegan í flóttamannakrísunni í tengslum við Sýrland árið 2015. Síðan þá hafi erfiðleikar verið uppi. „Það sem gerðist er að mörg ríki gátu skákað í skjóli ákvæðis Dyflinnarreglugerðarinnar um að senda hælisleitendur til þess lands sem þeir komu fyrst til innan Schengen-ríkjanna,“ greinir Eiríkur frá.

„Það má segja að mörg lönd hafi misnotað það ákvæði til að taka ekki inn umsóknir um hæli til efnislegrar meðferðar heldur senda fólk beint til baka.“

Hælisleitandi heldur á vatnsflöskum eftir að eldur kviknaði í flóttamannabúðunum …
Hælisleitandi heldur á vatnsflöskum eftir að eldur kviknaði í flóttamannabúðunum Moria. AFP

Þóttust misskilja ákvæðið

Örfá ríki ESB fóru verst út úr þessu, eða þau sem hælisleitendur fóru fyrst til. Um heimildarákvæði var að ræða en ekki skylduákvæði og fóru mörg ríki vísvitandi að þykjast misskilja ákvæðið, að sögn Eiríks. Þau hafi skákað í þessu skjóli og síðan þá hafi gríðarleg umræða verið um að dreifa þurfi flóttamönnum og hælisleitendum betur á milli landa, þannig að mesta álagið verði ekki á Ítalíu, Grikklandi og Spáni.

Hann segir að umræðan hafi reynst afar erfið og að mörg ríki hafi staðið fast á móti breytingum á kerfinu. Annars konar flóttamannakerfi sé skref í átt að málamiðlun en endanleg útfærsla á því er ekki komin fram.

Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst.
Dr. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst. hari

Þröng skilgreining á Íslandi

Spurður út í túlkun Íslands á Dyflinnarreglugerðinni segir hann stjórnvöld yfirleitt túlka reglugerðina mjög þröngt. Þau hafi nýtt heimildarákvæðið með mjög afgerandi hætti til að senda fólk til baka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert