Dyflinnarreglugerðin verður afnumin

Ursula Von der Leyen í ræðu sinni í dag.
Ursula Von der Leyen í ræðu sinni í dag. AFP

Dyflinnarreglugerðin verður afnumin og í stað hennar verður tekið upp nýtt stjórnkerfi fyrir hælisleitendur í Evrópu. Þetta sagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í dag.

Dyflinnarreglugerðin var sett á stofn árið 1990 og síðan þá hafa tvívegis verið gerðar á henni breytingar, nú síðast árið 2013.

Á öndverðum meiði

Reglugerðin er liður í Schengen-samstarfinu og snýr að málsmeðferð í málefnum hælisleitenda. Því er ætlað að koma í veg fyrir að ríkisborgari þriðja ríkis ferðist á milli Schengen-landanna og sæki um hæli í hverju ríki.

Leyen hvatti ríki ESB til að vinna saman vegna flóttamannavandans og lofaði því að ný reglugerðarbók verði samin.

Aðildarríki ESB hafa verið á öndverðum meiði um hvernig á að takast á við vandann. Ítalir og Grikkir hafa óskað eftir aukinni hjálp við að hýsa þær þúsundir flóttamanna og hælisleitenda sem hafa komið þangað siglandi.

Tilraunir til umbóta hafa ekki hlotið brautargengi hjá ríkjum ESB en eftir að mikill eldsvoði varð í yfirfullum flóttamannabúðum í Grikklandi hvatti Leyen til þess að gripið yrði til aðgerða.

mbl.is

Bloggað um fréttina