Helgi Hrafn greindist með veiruna

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur greinst með Covid-19, en frá þessu greinir hann á facebooksíðu sinni í dag. Helgi fékk greininguna í gærkvöldi og segist síðan þá hafa lítið gert annað en að tala við fólk, ýmist sérfræðinga eða nákomna, og sinna smitrakningu. 

Ef þið hittuð mig á mánudag eða þriðjudag og við umgengumst hvort annað í meira en 15 mínútur, og ekki hefur verið haft samband við ykkur frá smitrakningu nú þegar, getið þið haft samband við mig og ég svara eftir bestu getu,“ segir Helgi í færslunni.

Helgi segist hafa greint Alþingi frá málinu og gerðar hafi verið viðeigandi ráðstafanir. Hins vegar hafi þingið ekki starfað síðan 4. september og taki ekki til starfa að nýju fyrr en 1. október. Því sé tímasetningin, þótt alltaf sé óheppilegt að smitast, ekki sú versta upp á smitleiðir og þingstörf að ræða.

Helgi tekur fram að heilsa sín sé ágæt enn sem komið er. Biður hann fólk svo að gæta að sóttvörnum. „Endilega farið varlega. Það kom mér ekki minna á óvart að smitast en það kæmi þér að smitast núna. Við erum öll almannavarnir.mbl.is