Hugsa um hvar, hvenær og hvernig

„Við erum bara að reyna að virkja ungt fólk og hugsa um hvar, hvenær og hvernig ungt fólk hefur áhrif,“ segir Sveinn Ægir Birgisson, varaformaður UMFÍ, en í dag hefur ungt fólk rætt við kjörna fulltrúa um hvernig það getur komið málum sem það varða áleiðis í lýðræðisþjóðfélagi. 

Ráðstefnur af þessu tagi hafa verið haldnar á hverju ári síðan 2009 undir merkjunum: Ungt fólk og lýðræði. Í ár hefur það þó gengið brösuglega vegna samkomutakmarkana. „Þetta er í rauninni þriðja tilraunin til að halda ráðstefnuna en allt er þegar þrennt er,“ segir Sveinn Ægir en þetta er í fyrsta skipti sem hún er haldin í borginni.

Það hefur þó sína kosti: „Þetta er smá munur en það er ótrúlega skemmtilegt að fá þetta tækifæri til að vera í bænum og fá alla þessa flottu ráðamenn til okkar,“ segir Embla Líf Hallsdóttir, skemmtanastjóri UMFÍ. Í stað þess að vera á Laugarvatni eins og upprunalega var gert ráð fyrir hefur viðburðurinn farið fram í Hörpu. Þangað gátu þau fengið breiðan hóp fólks úr íslensku stjórnkerfi til að koma.

En á meðal þeirra sem komu til að ræða við og hlusta á unga fólkið í dag voru: Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, og Björn Leví Gunnarsson, þingamaður Pírata. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert