Reiknar með því að sækja um

Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Víðir Reyn­is­son, yf­ir­lög­regluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Betur gengur að skrá brot á sóttvarnalögum eftir að nýr hnappur var tekinn í gangið á upplýsingasíðu landlæknis og almannavarna. Áður var fólk helst að tilkynna brot til yfirvalda í gegnum samfélagsmiðla eða símleiðis en nú hafi verið komið á betra kerfi. Ekki hefur þó orðið aukning í brotum á sóttvarnalögum að sögn Víðis Reynissonar en lögreglu berist þó reglulega tilkynningar.

Víðir segist reikna með að sækja um stöðu yfirlögregluþjóns almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, en það er sú staða sem Víðir var fenginn til að gegn tímabundið á meðan kórónuveiran gekk yfir.

Ekki stórkostleg breyting

„Við höfum fengið einhverjar örfáar tilkynningar um brot og svo sjáum við náttúrulega líka í fjölmiðlum einhver dæmi um slíkt þannig við erum að fara aðeins yfir þau mál núna en það hefur ekkert verið stórkostleg breyting frá því sem hefur verið. Við fáum reglulega tilkynningar um þetta og fylgjum því eftir af krafti,“ segir Víðir í samtali við mbl.is.

Víðir tók fram á upplýsingafundi almannavarna nú síðdegis að mögulega muni lögreglumenn hefja aftur eftirlit með veitinga- og skemmtistöðum borgarinnar verði reglur hertar á nýjan leik. Hann tekur þó fram að ekki liggi endilega fyrir grunur um að þeir veitingastaðir, þar sem smit greindust um liðna helgi, hafi ekki hugað að sóttvörnum. 

„Ef reglur verða hertar þá munum við auðvitað vinna með rekstraraðilum veitingastaða og aðstoða þá við að huga að sóttvörnum," sagði Víðir á fundinum.

Hnappurinn hefur reynst vel

Nýr hnappur var nýverið tekinn í notkun á covid.is, upplýsingasíðu Lnadlæknisembættisins og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, þar sem almenningi gefst tækifæri á að tilkynna brot á sóttvörnum með skilvirkari hætti en áður hefur verið. Aðspurður segir Víðir hnappinn vera að reynast vel.

„Þessi nýi hnappur reynist vel og hann breytir aðeins eðli tilkynninganna, það er að segja, þú þarft að gefa miklu meiri upplýsingar þar heldur en á samfélagsmiðlum eða í gegnum símtöl.

Það gerir það að verkum að upplýsingarnar sem við fáum eru vandaðari og betur skráðar og það gerir okkur aðveldara að skrá og kanna þessi mál sem eru tilkynnt með þessum hætti en þau sem eru tilkynnt í gegnum samfélagsmiðla eða með símtölum.“

Reiknar með að sækja um

Greint hefur verið frá í því í fréttum mbl.is að staðan, sem Víðir var fenginn til þess að gegna tímabundið í baráttunni við kórónuveiruna, hefur verið auglýst til umsóknar. Víðir segist ekki enn hafa sótt um starfið.

„Ég hef ekki enn sótt um, nei.“

Hyggstu gera það?

„Já, ég reikna með því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert