„Það þarf að vera einhver skemmtun“

„Það þarf að vera einhver skemmtun, það þarf menningu. Fólk þarf að geta lyft sér upp,“ segir Hrönn Marinósdóttir, framkvæmdastjóri RIFF, en hátíðin hefst nú innan skamms þrátt fyrir krefjandi aðstæður í samfélaginu. Sérstakur bíóbíll mun rúnta um landið á vegum hátíðarinnar og sýna leikskólabörnum sérvaldar myndir á morgnana en á kvöldin verður bílabíói varpað á veggi á viðkomustöðum hans. 

Allar helstu myndir hátíðarinnar verða sýndar í Bíó Paradís og Norræna húsinu og þar er takmarkað sætaframboð. Til að bregðast við þessu var sett upp netumsjónarkerfi fyrir hátíðina þar sem hægt er að horfa á myndir hátíðarinnar á netinu og taka þátt í viðburðum.

„Nýungin í ár sem við erum auðvitað mjög ánægð með er að nú getum við boðið öllum, hvar sem þeir eru á landinu, að horfa á myndirnar,“ segir Hrönn í samtali við mbl.is en kynningarfundur fór fram við Reykjavíkurhöfn í dag þegar bíóbíllinn lagði af stað í hringferð sína um landið.

Hátíðin sem nú er haldin í sautjánda skipti hefst þann 24. september og stendur yfir til 4. október. Opnunarmynd hátíðarinnar er Þriðji Póllinn eftir Anní Ólafsdóttur og Andra Snæ Magnason.

Hægt er að kynna sér dagskrá hátíðarinnar á vef hennar en miðasala er hafin.  

mbl.is