108 konur þurfa frekari skoðun

Krabbameinsfélagið hefur nú endurskoðað 3.300 sýni sem tekin voru við krabbameinsleit í leghálsi og er ljóst að kalla þarf 108 konur til frekari skoðunar. Endurskoðun á sýnunum er gerð eftir að mistök sem komu upp við greiningu sýna urðu félaginu ljós. Endurskoða þarf 6.000 sýni.

Þetta kemur fram í frétt RÚV sem vísar til skriflegs svars Ágústs Inga Ágústssonar, yfirlæknis og sviðsstjóra leitarsviðs Krabbameinsfélagsins. Þar kemur fram að Krabbameinsfélagið hafi í fyrstu talið að kalla þyrfti færri konur inn til frekari skoðunar. 

2.500 sýni höfðu verið rannsökuð í síðustu viku og þurfti að kalla 65 konur til frekari skoðunar, en það gerir um 2,6% hlutfall. Nú hafa 3.300 sýni verið rannsökuð og er ljóst að 108 konur þurfa að koma til frekari skoðunar. 

„Gæti breyst eitthvað“

Af þessum 800 sýnum sem rannsökuð voru á milli vikna þurfa 43 að koma til frekari skoðunar, eða 5,4% þeirra kvenna sem sýnin voru úr. Áður hafði verið áætlað að 100 til 150 konur þyrftu að koma til frekari skoðunar af þeim 6.000 sýnum sem Krabbameinsfélagið telur þörf á að endurskoða. 

Ágúst segir að fyrstu tölur hafi bent til þess að hafa þyrfti samband við um 2,5% af þessum 6.000 konum þar sem sýni voru endurskoðuð. 

„En þá vorum við stutt á veg komin og því ekki um áreiðanlegar tölur að ræða. Eins og staðan er núna eru þetta um 3,3% og hefur verið nokkuð stöðugt, en það gæti auðvitað breyst eitthvað,“ segir í svari frá Ágústi.

Samkvæmt þessu gætu því um 200 þurft að koma til frekari skoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert