Nýr strengur tryggir fjarskiptaöryggi

Aðalástæða þess að stjórnvöld stefna að lagningu nýs fjarskiptasæstrengs til Evrópu er krafa nútímans um öryggi í fjarskiptum við útlönd. Með þriðja strengnum er nokkurn veginn tryggt að landið verði aldrei sambandslaust. Öryggið er einnig lykilatriði í því að laða hingað gagnaver. Þótt núverandi tenging sé ekki nýtt nema að hluta er vöxturinn það mikill að hún verður fullnýtt eftir sex ár, eða svo.

Í stefnu fyrir fjarskipti fyrir tímabilið 2019 til 2033 sem samþykkt var á Alþingi á síðasta ári kemur fram að þrír virkir fjarskiptastrengir skuli tengja Ísland við Evrópu. Ríkisstjórnin samþykkti fyrir skömmu að tryggja fjármögnun nýs strengs milli Íslands og Írlands og stefnt skuli að því að taka hann í notkun fyrir lok árs 2022 eða á árinu 2023 í síðasta lagi. Stofnkostnaður er áætlaður 50 milljónir evra sem svarar til um 8 milljarða króna. Framkvæmdin er háð samþykki Alþingis.

Farice ehf., félag í fullri eigu ríkisins, hefur frá byrjun árs 2019 unnið að undirbúningi lagningar nýs strengs fyrir hönd Fjarskiptasjóðs og hefur allan tímann verið stefnt að landtöku á vesturströnd Írlands. Nú hafa náðst samningar við samstarfsfyrirtæki í Írlandi og verður landtakan í bænum Galway og tengingin til Evrópu og Bandaríkjanna fer um Dyflinni, höfuðborg Írlands. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar gerði það kleift að hefja rannsóknir á hafsbotni út frá Galway.

Öryggi upp á fimm níur

Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice, segir að þörfin fyrir aukið öryggi í fjarskiptum sé meginástæðan fyrir því að ákveðið er að leggja nýjan fjarskiptasæstreng. Strengirnir eru nú tveir, Farice 1, sem liggur til Skotlands með tengingu við Færeyjar, og Danice sem liggur til Danmerkur. Farice er kominn til ára sinna en hefur staðið vel fyrir sínu, þjónustan hefur ekki rofnað mikið. Öryggi hans er reiknað 99,95% sem þykir ágætt en þýðir að líkur geti verið á að samband rofni í 1-2 daga á tíu ára tímabili. Þorvarður segir að samfélagið sé orðið svo háð fjarskiptum, eins og skýrt hafi sést í kórónuveirufaraldrinum, að fólk og atvinnulíf sætti sig ekki við að vera án sambands við umheiminn í svo langan tíma.

Þess vegna þurfi nýja leið til Evrópu, óháða þeim sem fyrir eru. Með því sé stefnt að fjarskiptaöryggi upp á „fimm níur“, það er að segja 99,999% öryggi. Það þýðir að ekki séu líkur á að samband rofni nema í 1-2 klukkustundir á tíu ára tímabili. Þá verði öryggið nánast fullt og í raun ólíklegt að nokkurt rof verði á þjónustunni.

Það eru ekki aðeins heimilin og atvinnulífið sem þurfa öruggt fjarskiptasamband, þriðji strengurinn er talinn forsenda fyrir áframhaldandi uppbyggingu gagnaversiðnaðar hér á landi og annarrar starfsemi í tengslum við fjórðu iðnbyltinguna. Raunar gera sum gagnaversfyrirtæki kröfur um fjórar mismunandi leiðir úr landi.

Þótt öryggisþátturinn sé ráðandi aukast fjarskiptin svo mikið að innan nokkurra ára má búast við að núverandi strengir verði fulllestaðir. Það rekur því einnig á eftir því að sambandið við Evrópu verði styrkt.

Lending við Reykjanes

Næstu verkefni við undirbúning lagningar fjarskiptasæstrengs til Írlands er að fá staðfestingu á því að aðstæður séu góðar til að leggja strenginn til Galway. Skip er nú við rannsóknir þar og niðurstöður liggja fyrir á næstu vikum.

Þá þarf að ljúka ákvörðun um val á stað til landtöku á Íslandi. Ef nýi strengurinn á að vera óháður Danice sem kemur á land á Landeyjasandi þarf hann að vera vestan við hann og stórfljótin, það er að segja á suðurströnd Reykjanesskagans. Í byrjun árs 2019 var einkum verið að huga að svæðinu fyrir vestan Grindavík og voru Suðurvík og Mölvík þá til athugunar. Þorvarður Sveinsson segir markmiðið að ljúka staðarvali fyrir jól og láta gera botnrannsóknir við þann lendingarstað næsta vor, ef fjármagn fæst. Markmið Farice er að geta farið hratt af stað þegar fjárveitingar fást þannig að strengurinn verði tilbúinn haustið 2022.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert