Fjögur smit til viðbótar tengd Reykjalundi

Samtals eru smitin í þessari þriðju bylgju sem tengjast Reykjalundi …
Samtals eru smitin í þessari þriðju bylgju sem tengjast Reykjalundi orðin fimm, fjórir starfsmenn og einn skjólstæðingur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrjú smit hafa greinst til viðbótar hjá starfsfólki Reykjalundar eftir að starfsmaður greindist þar smitaður af Covid-19 á fimmtudaginn. Þá er vitað um að minnsta kosti einn skjólstæðing sem einnig hefur greinst jákvæður.

Vegna þessa hefur framkvæmdastjórn Reykjalundar ákveðið að gera meðferðarhlé hjá öllum þjónustuþegum dag- og göngudeilda Reykjalundar vikuna 21.-25. september, en um 100-120 manns heimsækja Reykjalund daglega í þessum tilgangi. Þetta þýðir að gert er hlé á meðferðum allra átta meðferðarteyma þessa viku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.

Eftir að fyrsta smitið kom upp var í öryggisskyni hluti af starfsemi Reykjalundar lokað tímabundið og fóru 18 starfsmenn í sóttkví. Jafnframt var haft samband við þá skjólstæðinga sem verið höfðu í návist viðkomandi einstaklings. Fóru þeir ýmist í sóttkví og sýnatöku eða gerðu tímabundið hlé á sinni meðferð á Reykjalundi.

Fram kemur jafnframt að stjórnendur Reykjalundar muni fylgjast grannt með stöðu mála og bregðast við eftir þörfum. Verða gefnar út nákvæmari upplýsingar fyrir lok næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert