Mikil hagræðing framundan á Akureyri

Bæjarstjórn Akueyrar.
Bæjarstjórn Akueyrar. Ljósmynd/Aðsend

Allir flokkar í bæjarstjórn Akureyrar tilkynntu í dag að þeir myndu starfa saman að stjórn bæjarins það sem eftir lifir kjörtímabils. Fyrirkomulag meiri- og minnihluta í bænum hefði verið afnumið.

Stór verkefni bíða sameinaðrar bæjarstjórnar, sem þarf að taka á rekstrarvanda sveitarfélagsins. Sá vandi skýrist að hluta af kórónukreppunni, en nær þó lengra aftur.

Í samstarfssáttmála bæjarstjórnarinnar, sem undirritaður var í Hofi í hádeginu, segir að framtíðarsýn bæjarstjórnar til næstu fimm ára geri ráð fyrir að rekstur bæjarins verði fjárhagslega sjálfbær. Vörn verði snúið í sókn.

Til að ná því markmiði eru ýmis mál tínd til. Draga á úr húsnæðisnotkun sveitarfélagsins með því að samnýta eða selja húsnæði, einfalda stjórnsýslu og sameina svið bæjarins. Endurskoða á laun bæjarfulltrúa, bæjarstjóra og sviðsstjóra og meta hvaða ólögbundnu verkefnum á að hætta eða draga úr.

Þá verða gjaldskrár bæjarins hækkaðar, dregið úr afgreiðslutíma þar sem því verður við komið og leitað leiða til að draga úr kostnaði við snjómokstur. Eins verður tekin upp gjaldskylda á bílastæðum í miðbænum og ráðist í að meta kosti þess að útvista verkefnum á vegum bæjarins.

Í sáttmálanum segir enn fremur að standa þurfi vörð um öflugt stuðningsnet með áherslu á þá sem standa höllum fæti. Gjaldtaka fyrir þjónustu þurfi að vera hófleg og taka tillittil félagslegra og fjárhagslegra aðstæðna.

Frá blaðamannafundi allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar.
Frá blaðamannafundi allra flokka í bæjarstjórn Akureyrar. mbl.is/Margrét Þóra Þorláksdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka