Gul viðvörun vegna hvassviðris og storms

Hvasst verður við Faxaflóa og Breiðafjörð framan af morgni.
Hvasst verður við Faxaflóa og Breiðafjörð framan af morgni. mbl.is/​Hari

Gul viðvörun hefur verið gefin út á Breiðafirði og miðhálendinu vegna hvassviðris og storms.

Viðvörunin á Breiðafirði á að renna út núna klukkan 9 en hin viðvörunin gildir til klukkan 15 í dag.

Á miðhálendinu verður staðbundinn sunnanstormur eða –rok með jöfnum vindi yfir 20 metrum á sekúndu og hviðum yfir 40 m/s norðan jökla. Afleitt veður er til útivistar og ferðalaga á svæðinu.

Spáð er suðaustan hvassviðri eða –stormi við Faxaflóa og Breiðafjörð framan af morgni.

Suðaustan 13-18 m/s og rigning verður sunnan- og vestanlands. Hægara og þurrt verður um norðaustanvert landið.

Sunnan og suðaustan 10-18 m/s verða eftir hádegi, hvassast á NA-landi og áfram rigning S- og A-lands, en dregur talsvert úr vindi í kvöld. Hiti verður á bilinu 5 til 12 stig, hlýjast nyrst.

Suðaustan 10-18 og rigning verður í fyrramálið, hvassast við A-ströndina, en snýst í norðvestan 5-13 og rofar til S- og V-lands seinnipartinn. Hiti verður á bilinu 4 til 11 stig, hlýjast fyrir austan.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert