Dæmdur fyrir kynferðislega áreitni í sundi

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þór

Karlmaður hefur verið dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í tveggja mánaða fangelsi og til að greiða tveimur drengjum samtals 500 þúsund krónur fyrir kynferðislega áreitni þar sem þeir voru í sundi.

Málið var dæmt að manninum fjarstöddum, en hann sótti ekki þing eftir að það hafði verið auglýst í Lögbirtingablaðinu, en ljóst var að hann dvaldi ekki á skráðu heimili sínu.

Var maðurinn því dæmdur í samræmi við það sem kom fram í ákæru málsins, en þar var honum gert að sök að hafa brotið gegn drengjunum tveimur í fyrra, þegar þeir voru 7 ára gamlir, í sundi. Var hann sakfelldur fyrir að hafa ítrekað slegið á rass drengjanna og snert kynfærasvæði þeirra, allt utanklæða. Áttu brotin sér stað bæði í innilaug og búningsaðstöðu sundlaugarinnar.

Foreldrar drengjanna fóru fram á, fyrir þeirra hönd, að maðurinn myndi greiða eina milljón krónur til hvors í miskabætur.

Dómari málsins taldi hæfilegar bætur 200 þúsund og 300 þúsund krónur, en horft var til þess að háttsemin væri til þess fallin að valda drengjunum miska auk ungs aldurs þeirra.

Við ákvörðun refsingar upp á tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi var meðal annars horft til þess að maðurinn hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.

mbl.is