Hífðu flutningabílinn upp á flutningabíl

Ljósmynd/Aðsend

Ágætlega gekk að hífa flutningabíl sem þveraði hringveginn á Vesturlandi í gær en það var þó nokkuð tímafrekt, að sögn Jóns Sigurðar Ólafssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Vesturlandi. Hífa þurfti bílinn upp með tveimur krönum upp á annan flutningabíl sem keyrði svo með kollega sinn, þ.e. flutningabílinn sem fór á hliðina, á brott. 

Um klukkan tíu í gærmorgun barst lögreglunni á Vesturlandi tilkynning um flutningabíl sem þveraði þjóðveg 1 norðan við Grund­ar­tanga en sunn­an Akra­fjalls­veg­ar. Allri um­ferð um þjóðveg 1 var því beint út fyr­ir Akra­fjall um veg 51 á meðan leyst var úr málum. 

Jón segir að bílstjóri flutningabílsins hafi ekki hlotið alvarlega áverka. Ekkert umferðaröngþveiti varð vegna atviksins enda hjáleiðin ekki löng. Jón segir óvitað hvað nákvæmlega varð til þess að bíllinn endaði á hliðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert