Rafmagnsleysi hefur áhrif á sýnatöku

Sýnataka við Suðurlandsbraut. Rafmagnsleysi hefur nú þau áhrif að ekki …
Sýnataka við Suðurlandsbraut. Rafmagnsleysi hefur nú þau áhrif að ekki er hægt að taka sýni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rafmagnsleysi í kringum Grensásveg, Skeifuna og Faxafen, sem varð vegna háspennubilunar nú eftir hádegi, hefur áhrif á sýnatöku vegna skimunar á Covid-19 á Suðurlandsbraut. Tölvur og netbúnaður liggja niðri og var þeim sem biðu eftir sýnatöku tilkynnt af starfsmanni að einhver töf yrði.

Samkvæmt upplýsingum frá Ólöfu Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Veitna, er ekki vitað með vissu hversu víðtæk bilunin er, en hún nær allavega til Skeifunnar, Grensásvegs, Síðumúla, Ármúla og Faxafens. Starfsmenn Veitna vinna nú að því að greina bilunina og laga, en Ólöf segir að ekki sé búist við að bilunin muni vara lengi.

Uppfært: Sýnatakan er aftur komin af stað, en enn er þó rafmagnsleysi á staðnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert