Fær að bera vitni í nauðgunarmáli gegnum Teams

Konan fær að bera vitni gegnum fjarfundarbúnaðinn Microsoft Teams í …
Konan fær að bera vitni gegnum fjarfundarbúnaðinn Microsoft Teams í ræðisskrifstofu Íslands í Bandaríkjunum. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness þess efnis að kona, sem hefur réttarstöðu brotaþola í dómsmáli gegn nuddara, fái að bera vitni í gegnum fjarfundarbúnaðinn Microsoft Teams þar sem hún er búsett í Bandaríkjunum.

Nuddaranum er gefið að sök að hafa nauðgað fjórum konum á tímabilinu 2009 til 2015; nuddað kynfæri þeirra og sett fingur í leggöng og endaþarm án samþykkis.

Til stóð að aðalmeðferð málsins hæfist 21. september, en áður en að því kom mótmælti maðurinn því að einn brotaþola fengi að gefa vitnisburð í gegnum fjarfundarbúnað. Áfrýjaði hann þeim úrskurði héraðsdóms til Landsréttar.

Í úrskurði Landsréttar segir að sú meginregla gildi að framburður vitnis, sem talinn er getra ráðið úrslutum máls, skuli koma fyrir dóm með því að mæta á þingstað. Með sérstökum breytingum á ýmsum lögum vegna heimsfaraldurs kórónuveiru hafi dómurum hins vegar verið veitt víðtækari heimild til að ákveða að skýrsla verði tekin af vitni á dómþingi gegnum fjarskiptatæki. Staðfesti Landsréttur því, sem fyrr segir, úrskurð héraðsdóms.

Konan sem um ræðir er nú með umsókn um að fá varanlegt landvistarleyfi í Bandaríkjunum og má því ekki yfirgefa landið. Þá væri óvíst hvort hún kæmist til Bandaríkjanna á nýjan leik vegna heimsfaraldursins.

Henni er því heimilt að bera vitni í gegnum fjarfundarbúnaðinn Microsoft Teams með því að mæta á skrifstofu ræðismanns í Bandaríkjunum.

mbl.is