ÍE rannsakar eftirköst COVID-19

Frá höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar sem sér um rannsóknina.
Frá höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar sem sér um rannsóknina. mbl.is/Kristinn

Íslensk erfðagreining (ÍE) er farin af stað með rannsókn á eftirköstum COVID-19 sjúkdómsins og stefnir ÍE á að boða alla sem fengu staðfest smit kórónuveiru í fyrstu bylgju faraldursins hérlendis í rannsókn. Fyrstu niðurstaðna má vænta fljótlega.

Hilma Hólm, yfirmaður hjarta- og æðarannsókna hjá Íslenskri erfðagreiningu, stýrir rannsókninni. Hún segir mikilvægt að kortleggja vandann og grípa þá sem glíma við eftirköst sjúkdómsins en eins og áður hefur komið fram glímir fjöldi fólks við eftirköst og eru biðlistar á Reykjalundi eftir endurhæfingu vegna eftirkasta. 

Rannsóknin er hluti af Heilsurannsókn Íslenskrar erfðagreiningar sem hefur verið í gangi í nokkur ár. 

„Við bjóðum þeim einstaklingum sem greindust með COVID-19 í fyrstu bylgjunni, í mars og apríl, í Heilsurannsóknina sem er þó aðlöguð að breyttu verkefni. Tilgangurinn er að meta bæði hvaða einkenni fólk er helst að kljást við á þessum tíma og líka gera mælingar á ýmissi líkamsstarfsemi. Það er því annars vegar um að ræða mat fólksins á sinni líðan og líka beinar mælingar, t.d. öndunarpróf, hjartalínurit, áreynslupróf og augnbotnamyndir. Svo metum við líka lykt og bragð,“ segir Hilma í samtali við mbl.is. 

Allt að 18 rannsakaðir daglega

250 hafa nú þegar verið boðaðir í rannsóknina og segir Hilma að viðbrögðin hafi verið góð til þessa. Þeim sem greindust verður boðið í áföngum enda um umfangsmikla rannsókn að ræða. Hún tekur um fjórar klukkustundir fyrir hvern og einn og mun ÍE geta tekið við allt að 18 manns í rannsóknina daglega. 

Spurð hvers vegna mikilvægt sé að rannsaka eftirköst COVID-19 segir Hilma: 

„Í fyrsta lagi vegna þess að þetta er nýr sjúkdómur og það veit enginn hverjar langtíma afleiðingarnar kunna að vera. Í öðru lagi vegna þess að þetta er svo algengur sjúkdómur. Til þess að geta brugðist fyrr við mögulegum afleiðingum hjá svona mörgum er gríðarlega mikilvægt að kortleggja vandann. Því fyrr sem við gerum það því fyrr getum við gripið inn í möguleg langtíma sjúkdómsferli.“

Fyrstu niðurstaðna úr rannsókninni má vænta þegar 100 einstaklingar hafa verið rannsakaðir, en það verður væntanlega á næstu vikum. 

RÚV greindi fyrst frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert