Framlög til umhverfismála hækkað um 47%

Alls verður 24,3 milljörðum króna varið til umhverfismála á næsta …
Alls verður 24,3 milljörðum króna varið til umhverfismála á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Undir það falla hin ýmsu verkefni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framlög til umhverfismála verða 47% hærri á föstu verðlagi árið 2021 en þau voru við við upphaf kjörtímabils árið 2017. Munu heildarútgjöld ríkisns til málaflokksins nema 24,3 milljörðum króna á næsta ári. 

Undir umhverfismál falla ýmis málefni, svo sem náttúrurannsóknir, skógrækt, veðurathuganir og þjóðgarðar. Í fjármálaætlun áranna 2021-2025 er gert ráð fyrir að útgjöldin verði nokkuð stöðug næstu fjögur ár, en nemi 25,3 milljörðum árið 2025.

Sé litið til fjárlaga næsta árs verður 5,3 milljörðum varið í náttúruvernd, skógrækt og landgræðslu. Framlög til Vatnajökulsþjóðgarðs nema um einum milljarði og þjóðgarðsins á Þingvöllum um 357 milljónum. Þá fær Landgræðsla ríkisins 1,37 milljarða króna en Skógræktin 1,5 milljarða.

Veðurstofa Íslands fær 2,94 milljarða samkvæmt fjárlögum og hækkar framlag um 14% frá fyrra ári. Skýrist það af auknu framlagi til tækjakaupa, sem nemur 361 milljónum króna í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Framlag til ofanflóðasjóðs rúmlega tvöfaldast milli ára og verður 2,4 milljarðar króna samanborið við 1,1 milljarð á fjárlögum 2020. Framkvæmdir við nýja varnargarða er hafin á Patreksfirði  í kjölfar snjóflóða síðasta vetur, en þeim á að vera lokið 2023.

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs er einnig gert ráð fyrir 800 milljónum króna styrk til fráveitna sveitarfélaga en á tímabilinu 2021-2025 á að verja 2,8 milljörðum króna til málaflokksins. Í skýrslu vinnuhóps sem umhverfisráðherra skipaði í fyrra kemur fram að víða uppfylli fráveitur í þéttbýli ekki þær kröfur sem gerðar séu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert