Andrés utan gátta fundinn

Lára Magnúsardóttir kann skýringu á vísunni um jólasveinana einn og …
Lára Magnúsardóttir kann skýringu á vísunni um jólasveinana einn og átta, en vísan hefur lengi verið mönnum ráðgáta. mbl.is/Ásdís

Flest okkar kunnum þessa vísu: Jólasveinar einn og átta, ofan koma af fjöllunum. Í fyrrakvöld þeir fóru að hátta, og fundu’ ann Jón á völlunum. Andrés stóð þar utan gátta, það átti að færa hann tröllunum, en þá var hringt í Hólakirkju öllum jólabjöllunum. 

Vísan um jólasveinana níu hefur lengi verið ráðgáta. Af hverju eru þeir níu en ekki þrettán? Hver er þessi Andrés sem er svo utan gátta, og hvað þýðir það eiginlega? Og hverjir ætluðu að vera svo vondir að færa hann tröllunum? Eru þetta alvöru tröll? Hver er þessi Jón á völlunum? Hvað er hann að vilja upp á dekk? Hvaða vellir eru þetta?
Ef þú hefur ekki spurt þig þessara spurninga áður, ertu örugglega að því núna!

Andrés bannfærður

Lára Magnúsardóttir sagnfræðingur hefur sett fram athyglisverða tilgátu í grein sem birtist nýlega í Andvara. Þar svarar hún öllum þessum spurningum, en svörin var að finna í Árna sögu biskups, sem skrifuð er snemma á 14. öld. Lára hefur lengi lagt stund á sagnfræðirannsóknir með áherslu á stjórnmál, ríki og kirkju.

„Fyrir þremur árum var ég einu sinni sem oftar að lesa Árna sögu og ekki að leita eftir neinu sérstöku. Þá rek ég augun í þá lýsingu þegar verið er að koma líki Andrésar plytts inn í kirkjuna í Björgvin, en Andrés Pálsson þessi var mikill stórhöfðingi á þessum tíma í Noregi. Hann var í ríkisráði Noregs og var einn af þeim sem fóru fyrir veraldarvaldinu á móti því að innleiða kirkjuvaldið inn í ríkið,“ segir hún og segir að stjórnmálin á þessum tíma hafi verið afar flókin og merkileg.

„Ég er sem sagt að lesa um jarðarförina hans þegar ég skil allt í einu að þarna stendur Andrés, sem þýðir að líkið stendur, og hann er utan gátta af því að hann dó bannfærður. Það er verið að reyna að færa hann inn í kirkjuna en hinir sem eru á móti vilja að hann sé færður tröllunum, þannig að hann verði ekki með kristnum mönnum. Orðið tröll getur þýtt útlægur maður, sá sem hefur verið varpað í burtu. Þá allt í einu skil ég það að þarna er sama frásögnin og í jólalaginu.“

Jónsvellir og níumenningar

„Svo þegar ég fer að skoða þetta betur sé ég að þessi frásögn endar líka á bjölluhringingum. Þá átta ég mig á því að tveimur blaðsíðum framar var verið að tala um Jónsvelli, sem er þá í jólalaginu Jón á völlunum. Jónsvellir voru landsvæði í eigu Jónsklausturs í Björgvin,“ segir hún.

Lára útskýrir fyrir blaðamanni hvernig túlka mætti orðið jólasveinn og hvers vegna talað er um níu sveina.

„Hinn íslenski Loftur Helgason fór til Björgvinjar og ætlaði að tala máli sínu og nokkurra annarra við kónginn. En aðstæður voru aðrar en hann bjóst við og þá virtist ætlunarverk hans kjánalegt. Sá sem er að tala niður til hans, eins og gert er í vísunni, getur kallað hann jólasvein,“ segir Lára og segist lengi hafa velt fyrir sér tölunni níu, en eins og allir vita eru íslensku jólasveinarnir þrettán.

„Við nánari lestur sá ég svo að Loftur ætlaði að tala máli níu manna og þá efaðist ég ekki lengur.“

Jólasveinarnir íslensku eru þrettán og því þótti mönnum furðulegt að …
Jólasveinarnir íslensku eru þrettán og því þótti mönnum furðulegt að í vísunni góðu væru þeir aðeins níu. Lára er með skýringu á því. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hefur þá gamla vísan ekkert með jólin að gera?

„Nei. Nema það að hún hefur verið sungin sem jólavísa mjög lengi þótt það hafi aldrei neinn skilið um hvað hún er, þannig að mér finnst hún geti staðið áfram sem jólavísa.“

Ítarlegra viðtal við Láru er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert