Hundar mannsins drápust í brunanum

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn.
Oddur Árnason yfirlögregluþjónn. mbl.is/Sigurður Bogi

Tveir eða þrír hundar voru í húsbílnum sem brann í Grafningi í Árnessýslu. Leifar þeirra hafa fundist í bílnum að sögn Odds Árnasonar yfirlögregluþjóns hjá lög­regl­unni á Suður­landi. Hann segir að rannsókn sé í fullum gangi og að verðmætar upplýsingar hafi fengist frá almenningi sem nota megi til þess að tímasetja brunann nákvæmlega.

„Við höfum fengið góð viðbrögð frá fólki sem hefur sagt okkur frá því hvenær það var þarna á ferðinni og ýmist sá engin merki um eld eða sá merki um eld. Þetta eru verðmætar upplýsingar sem við styðjumst við,“ segir Oddur í samtali við mbl.is. 

Rikislögreglustjóri og Neyðarlínan harma málið

Oddur segir að hann sé ekki í forsvari fyrir Neyðarlínuna sem verði sjálf að svara fyrir það sem kann að hafa farið úrskeiðis í þessu máli. Eins og greint hefur verið frá barst tilkynningin um brunann ekki til lögreglu fyrr en seint og um síðir vegna samskiptaörðugleika milli Neyðarlínu og lögreglu.

„Við höfum alltaf fengið toppþjónustu frá Neyðarlínunni og mér finnst með ólíkindum að þetta geti gerst,“ segir Oddur.

Í tilkynningu til fjölmiðla frá ríkislögreglustjóra segir að embættið og Neyðarlínan sömuleiðis harmi að ekki hafi komið til útkalls í kjölfar tilkynningar sem barst um brunann. 

„Tæknilegir annmarkar urðu til þess að lögregla fékk ekki tilkynningu um atburðinn áður en innhringjandi sleit símtali. Það skýrist af því að mál stofnaðist ekki í kerfum sem fjarskiptamiðstöð og 112 vinna með þegar símtalið var flutt á milli. Þegar hefur verið sett af stað vinna til þess að bæta hugbúnað svo slíkt geti ekki endurtekið sig,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka