Breyting á lögum um lögbann á fjölmiðlaumfjöllun

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp þar sem breyta á lögum sem taka meðal annars á lögbanni við fjölmiðlaumfjöllun. Á frumvarpið upptök sín í kyrrsetningarmáli Glitni HoldCo gegn Stundinni vegna umfjöllunar sem unnin var upp úr gögnum frá Glitni.

Samkvæmt frumvarpinu þarf trygging til bráðabirgða ætíð að fylgja beiðni um lögbann við birtingu. Þá er einnig lagt til strangari bótagreiðslur í þessum málum og dómara heimilað að dæma bætur vegna tjóns sem varð við að birting efnis var hindruð vegna lögbanns.

Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að frestir við meðferð sýslumanns á lögbannsbeiðninni verði takmarkaðir eins og kostur er og einungis veittir í undantekningartilfellum. Að lokum er lagt til að staðfestingarmál, sem hægt er að höfða fyrir dómstólum í kjölfar lögbanns, fái flýtimeðferð.

Frumvarpið var lagt fram á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu úr nefnd og er nú lagt fram aftur óbreytt. Í tilkynningu á vef dómsmálaráðuneytisins kemur fram að tillögunum sé ætlað að styrkja umgjörð lögbannsmála og hraða málsmeðferðinni að gættum réttindum gerðarbeiðanda og gerðarþola.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert