Glitnir tapaði í Hæstarétti

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Landsréttar í máli Glitnis HoldCo gegn Stundinni og Reykjavík Media. Glitni er gert að greiða hvoru félagi um sig 1,2 milljónir króna í  málskostnað fyrir Landsrétti.

Haustið 2017 birtist í vikublaðinu Stundinni og í vefútgáfu sama blaðs viðamikil fréttaumfjöllun um viðskipti þáverandi forsætisráðherra og skyldmenna hans við Glitni HoldCo ehf. í aðdraganda bankahrunsins í október 2008.

Vísað var til þess að upplýsingarnar um umrædd viðskipti hefðu komið fram í gögnum sem rekja mætti til forvera Glitnis HoldCo ehf. sem Stundin hefði undir höndum og ynni úr í samstarfi við Reykjavík Media og breska fjölmiðilinn The Guardian.

Í október 2017 fékk Glitnir lagt lögbann við því að Stundin birti fréttir eða aðra umfjöllun, sem byggð væri á eða unnin upp úr gögnum eða kerfum Glitnis sem undirorpin væru trúnaði samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu staðfestingu lögbannsins og við veitingu áfrýjunarleyfis til Hæstaréttar var tekið fram að lögbannið hefði fallið úr gildi samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Á hinn bóginn samþykkti Hæstiréttur að taka til úrlausnar ágreining aðila annars vegar um hvort blaðamönnum Stundarinnar yrði gert að svara fyrir dómi nánar tilgreindum spurningum sem lutu að tilvist, efni og vörslum þeirra gagna sem fréttaumfjöllunin hefði tekið til og hins vegar hvort umfjöllunin hefði falið í sér brot gegn 58. gr. laga nr. 161/2002, 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Hvað varðaði fyrrgreinda ágreiningsefnið tók Hæstiréttur fram að samkvæmt orðanna hljóðan miðist vernd a. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sem og ákvæði 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla fyrst og fremst við það að óheimilt sé að upplýsa um það hver sé heimildarmaður í skilningi laganna. Með hliðsjón af athugasemdum við síðastgreint ákvæði, ákvæðum 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og að virtri dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu var talið að heimildavernd blaðamanna væri ætluð rýmri þýðing en svo.

Í henni fælist jafnframt sá áskilnaður að blaðamanni yrði ekki gert skylt að veita upplýsingar sem gætu leitt til þess að kennsl yrðu borin á heimildarmanninn. Þá yrði að ætla blaðamanni verulegt svigrúm til þess að meta hvort svör við spurningum tengdum tilvist slíkra gagna kynni hugsanlega að veita vísbendingar um hver heimildarmaðurinn væri. Var því fallist á með héraðsdómi og Landsrétti að vitnunum yrði ekki gert skylt að svara umræddum spurningum.

Hvað varðaði síðargreinda ágreiningsefnið taldi Hæstiréttur að 58. gr. laga nr. 161/2002 fullnægði þeirri kröfu 3. mgr. 73. gr. stjórnarskrárinnar og 10. gr. mannréttindasáttmálans að sú skerðing sem ákvæðið hefði í för með sér á tjáningarfrelsi ætti sér stoð í lögum og stefndi að lögmætu markmiði. Við mat á nauðsyn þeirrar takmörkunar, sem fólst í viðurkenningarkröfu Glitnis HoldCo um bann við miðlun gagnanna og upplýsinga úr þeim, vægjust á frelsi fjölmiðla til að gera almenningi grein fyrir þeim upplýsingum sem þar komu fram og réttur viðskiptamanna Glitnis HoldCo til bankaleyndar og friðhelgi einkalífs. Vísað var til þess að meta þyrfti umfjöllunina með heildstæðum hætti en þegar lögbannið var sett á hefðu einungis 12 dagar verið í að kosið yrði til Alþingis.

Þá hefði meginþungi umfjöllunarinnar lotið að viðskiptum þáverandi forsætisráðherra (Bjarna Benediktssonar) og aðila honum tengdum. Áréttað var að rétturinn til að fjalla opinberlega um málefni kjörinna stjórnmálamanna væri rýmri heldur en ella, auk þess sem hafa þyrfti í huga stöðu Stundarinnar og Reykjavíkur Media sem fjölmiðla og það hlutverk sem þeir gegna í lýðræðisþjóðfélagi. Var því einnig fallist á með héraðsdómi og Landsrétti að umrædd fréttaumfjöllun hafi verið heimil, að því er segir í reifun Hæstaréttar. 

Dóminn má lesa í heild hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert