Gera úttekt á kynbundnum mun

Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.
Eyþór Arnalds er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Borgarstjórn samþykkti samhljóða í gær að vísa tillögu Sjálfstæðisflokks um úttekt á kynbundnum mun á námsárangri í leik- og grunnskóla til skóla- og frístundasviðs til frekari úrvinnslu.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

„Tillagan gerir ráð fyrir því að skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að úttekt í samstarfi við fræðimenn á þessu sviði og koma í framhaldi með tillögur til úrbóta. Segir í tillögunni að í þessari vinnu verði ný menntastefna Reykjavíkurborgar höfð til hliðsjónar en í stefnunni segir að góð læsisfærni á íslensku sé „lykill að þekkingaröflun og skilningi á umhverfi og samfélagi.“

 „Með því að leggja tillöguna fram í borgarstjórn viljum við vekja athygli á þessum vanda og vinna á honum bug,“ segir Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

 „Lestur drengja er ein stærsta áskorun sem skólakerfið stendur frammi fyrir. Um það er ekki lengur deilt. Aðvaranir um alvarlega stöðu í þessum málum hafa blasað við síðasta áratuginn. Brottfall drengja á efri skólastigum kann að skýrast að miklu leyti af kynbundnum mun í lesskilningi á fyrstu skólastigum,“ sagði Eyþór m.a. í borgarstjórn við upplestur bókunar Sjálfstæðisflokks við málið og bætti við: „Tölurnar tala sínu máli og hafa þær gert það um langt skeið. Það er hagur alls samfélagsins að ná til þeirra sem dragast aftur úr. Hvert barn skiptir máli. Þegar svo stór hópur stendur höllum fæti eins og raun ber vitni á  borgarstjórn að bregðast við af festu og ábyrgð. Lestur og lesskilningur er undirstaða menntunar og framtíðarstarfa.“

Í greinargerð með tillögunni segir að staða drengja í skólakerfinu hafi versnað undanfarna tvo áratugi á ýmsum skólastigum. Þá segir jafnframt að nú blasi „við mikill kynjahalli í stærstu háskólum landsins þar sem hallar mjög á annað kynið. Til marks um það eru 73% nemenda sem stunda framhaldsnám við Háskóla Íslands konur. Það þýðir að 270% fleiri konur en karlar stunda framhaldsnám í HÍ. Næstum þrjár konur á móti hverjum karlmanni. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur nýlega vakið máls á þessari stöðu og telur að rekja megi vandann til fyrri skólastiga.“

Enn fremur segir í greinargerð að mikilvægt sé í þessu sambandi að greina betur kynbundin mun á námsárangri svo unnt sé að greina hvar rót vandans liggur.

 „Alkunna er að um 30% drengja geta ekki lesið sér til gagns að loknum grunnskóla, en það er of seint að bregðast við vandanum á því stigi.  Brottfall meðal drengja úr framhaldsskóla um 30% og þá er mikill skaði skeður. Fjöldi þeirra sem ekki geta lesið eftir annan bekk grunnskóla hefur verið 35-40%. Það hlutfall ætti að vera nálægt 10%. Það er því verk að vinna á fyrstu árum grunnskólans. Þá er mikilvægt að skoða hlutverk og stöðu leikskólans, enda benda rannsóknir til þess að fyrstu árin hafi mikil áhrif á framtíð barna.“

Þá segir enn fremur í greinargerð að þegar heildarmyndin sé skoðuð er fróðlegt að skoða nýlega skýrslu UNICEF þar sem lagt er mat á velferð barna í efnameiri ríkjum heims.

„Umboðsmaður barna Salvör Nordal hefur vakið athygli á þessari samanburðarskýrslu.  Birtur er samanburður milli 41 ríkis OECD og Evrópusambandsins. Þar kemur fram að hlutfall íslenskra barna sem hafa viðunandi færni í lestri og stærðfræði er aðeins 62%. Ísland lendir í 34. sæti af 41 ríki varðandi hæfni í stærðfræði og lestri, en það eru einmitt þau atriði sem menntamálaráðherra vill efla með nýjum áherslum í námsskrá,“ segir ennfremur í fréttatilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert