„Sigurinn hvergi í höfn“

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að kúrfa kórónuveirusmita sé á niðurleið en lítið þurfi út af að bregða svo það breytist. Ísland er eitt af fjórum löndum í Evrópu þar sem faraldurinn er á niðurleið en í öðrum löndum Evrópu er faraldurinn á uppleið. 

„Við erum að sjá faraldurinn ganga hægt og bítandi niður,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi almannavarna í morgun. 

„Árangurinn held ég að sýni að með samstöðu og samvinnu er hægt að beygja faraldurinn niður,“ bætti Þórólfur við og þakkaði öllum fyrir að taka þátt í hertum aðgerðum sem tóku gildi fyrir um tveimur vikum síðan í því skyni að takmarka útbreiðslu smita. 

Þórólfur sagði að um væri að ræða langhlaup og að ljóst væri að lítið þyrfti út af að bregða til þess að við fáum bakslag í faraldrinum innanlands. 

„Þó við getum kannski hrósað happi eins og staðan er núna þá er sigurinn hvergi í höfn og því þurfum við að halda áfram okkar samvinnu og samstöðu þannig að hægt verði á næstunni að létta á ýmsum íþyngjandi aðgerðum sem nú eru í gangi.“

Óvenju margir greinst smitaðir í landamæraskimun

Þá sagði Þórólfur að undanfarið hafi óvenju margir farþegar greinst smitaðir í landamæraskimun. Helst sé um að ræða farþega frá Póllandi sem hafa í einhverjum tilfellum greinst smitaðir í fyrri sýnatöku og í öðrum tilfellum í hinni síðari. Þórólfur sagði þetta endurspegla mikla aukningu smita í Póllandi. Hann tók fram að við gætum í framhaldinu séð aukningu frá öðrum þjóðum þar sem faraldurinn sé í uppsveiflu í Evrópu. Það undirstriki mikilvægi skimunar á landamærunum. 

„Ísland er eitt fjögurra landa í Evrópu þar sem tíðni daglegra smita og meðaltal síðustu 7 daga er að fara minnkandi,“ sagði Þórólfur. 

Einhver óskýr eða misvísandi tilmæli

Honum þykir leitt að verða vitni af þeim óróa sem kom upp í kjölfar útgáfu minnisblaðs hans og reglugerðar ráðherra sem tók gildi í byrjun viku. Þórólfur sagði hann þó skiljanlegan, líklega væri óróinn tilkominn vegna þess að bæði tvennt sé í mörgum tilfellum óskýrt og í einhverjum tilvikum misvísandi. 

„Ég vona hins vegar að þrátt fyrir þessa hnökra sjái allir meginmarkmið aðgerðanna sem er að forðast hópamyndun, forðast of mikla nánd, sérstaklega óskyldra og ótengdra aðila og forðast smithættu af sameiginlegum snertiflötum.“

Þórólfur sagði þá að bæði hann og ráðuneytið þurfi að draga lærdóm af þessum óróa og vera samhentari og skýrari í framsetningu í framtíðinni. Ekki væri óeðlilegt að stjórnvöld færu ekki eftir öllu sem hann legði til, þar sem stjórnvöld þurfi að taka mið af ýmsu öðru en sóttvarnarsjónarmiðum. 

Í lok erindis síns minnti Þórólfur fólk á að baráttunni væri hvergi nærri lokið. 

„Ég vil hvetja alla til dáða á næstu mánuðum,“ sagði Þórólfur.

mbl.is