Ekkert gen sem útskýrir fíkn

Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, telur að meðferð eigi að …
Kristín I. Pálsdóttir, talskona Rótarinnar, telur að meðferð eigi að vera kynjaskipt þar sem vandi kvenna er oft annar en karla. Einnig eru konur oft varnarlausar í blandaðri meðferð og segir hún margar þeirra verða fyrir ofbeldi þar. mbl.is/Ásdís

„Rótarmálin eiga hug minn allan,“ segir Kristín I. Pálsdóttir yfir kaffibolla einn fallegan haustdag. Hún hefur menntað sig í vímuefnavanda kvenna, en auk hennar eru starfandi í Rótinni góður hópur kvenna sem hafa margar hverjar sérhæft sig málefnum kvenna, áföllum þeirra og vímuefnaneyslu. Kristín segir Rótina hafa í upphafi orðið til þegar nýjar hugmyndir hafi kviknað hjá konum innan SÁÁ.

Fíknigen finnst ekki

Kristín segir ástæðu þess að konur tóku sig saman og stofnuðu sitt eigið félag hafi verið sú að það vantaði alla hugsun um kynjamun sem er til staðar við fíknivanda.

„Það er mjög mikill kynjamunur, hvernig konur fara inn í fíkn og út úr henni. Það hefur ekki verið tekið tillit til þess. Þórarinn Tyrfingsson mótaði þennan málaflokk mjög mikið en er með allt annað módel í huga heldur en við erum með. Það er sannað í dag að fíknivandi er að miklu leyti félagslegur. Konur nota önnur efni en karlar og það er svo margt ólíkt sem þarf að skoða,“ segir hún.

„Það er búið að eyða milljörðum í leit að fíknigeninu og það finnst ekki. Þegar talað er um erfðir er yfirleitt verið að vísa í fylgni og hún getur vissulega verið af félagslegum völdum þó að erfðafræðilegir þættir eigi líka hlut að máli. Þetta er þó ekki svart hvítt. Í dag vitum við til dæmis að alvarleg áföll hafa áhrif á erfðaefnið. Við Rótarkonur notum ekki þetta sjúkdómstungutak en auðvitað verður fólk veikt af mikilli og langvarandi notkun vímuefna.“

Ef þetta er ekki heilasjúkdómur og manneskja vinnur sig út úr áföllum, er viðkomandi þá ekki lengur alkahólisti?

„Það fer eftir mörgu. Það er fullt af fólki sem getur drukkið aftur. Það er til fólk sem hefur átt við vanda að stríða á einhverju tímabili í lífi sínu en ekki síðar meir. En við erum ekki með neina meðferð til að kenna fólki að drekka. Það er ekki tilgangurinn hjá okkur. Sýnt hefur verið fram á að vímuefnaneysla sé viðbragð við einhverju. Ef þú leysir vandann, minnkar þörfin fyrir skaðleg bjargráð.“

Áföll og vímuefni

Rótin breytti um stefnu árið 2018 og ákvað að bjóða upp á meiri þjónustu við konur.
„Við byrjuðum með námskeið fyrir konur með vímuefnavanda. Okkur var svo boðið að koma inn í Bjarkarhlíð með okkar sérþekkingu á á konum sem lent hafa í áföllum og eru í vímuefnavanda og fórum þar inn með námskeiðin og hópana í janúar 2019 og ári seinna byrjuðum við að bjóða þar ráðgjöf. Í fyrrahaust var okkur boðið að taka þátt í nýsköpunarhraðlinum Snjallræði og þar þróuðum við hugmyndir um hvernig þjónustu við vildum bjóða og útkoman varð Ástuhús. Þetta er ekki húsbygging, heldur hugmynd utan um okkar starf. Við fengum núna tíu milljónir frá heilbrigðisráðuneytinu og er það fyrsta fjármagnið inn í verkefnið. Við erum að leita að húsnæði til að hefja starfið, en við hugsum þetta sem göngudeildarþjónustu. Þetta er í startholunum, en í dag erum við inni í Bjarkarhlíð með megnið af okkar starfi,“ segir hún.

Kristín telur að Ástuhús muni henta mörgum konum í framtíðinni og verður þar ólík meðferð en boðin er upp á á Vogi.

Helmingur kvenna sem lendir í vímuefnavanda hefur orðið fyrir kynferðisbroti undir átján ára aldri og einn þriðji kvenna lent í kynferðisbroti eftir átján ára aldur, samkvæmt grein sem birtist á vef Rótarinnar. Þar segir einnig að konur séu ekki óhultar í meðferð með körlum og verða þær jafnvel fyrir kynferðisofbeldi í meðferð.

„Það er þannig, því miður,“ segir Kristín og telur að það ætti að kynjaskipta meðferð við vímuefnanotkun. 

„Það er mikill þröskuldur fyrir marga að fara á Vog. En það eru líka breytingar hjá SÁÁ og ný forysta.“

Konukot er neyðarathvarf

Rótin tók við rekstri Konukots fyrir örfáum vikum.

„Við komum inn með mjög stuttum fyrirvara en við tókum við núna 1. október og stefnum ekki að miklum breytingum til að byrja með heldur viljum kynnast starfseminni. Við tökum við góðu búi af Rauða krossinum og góðum starfskonum. Konukot getur hýst tólf konur eins og er. Það er eitt augljóst vandamál og það er að neyðarathvörf eru ætluð fólki í bráðavanda en þarna eru konur sem hafa verið þarna árum saman. Það er ekki hlutverk neyðarathvarfa,“ segir Kristín og bendir á að þarna sé lokað yfir daginn.

„Það eina góða sem komið hefur út úr Covid að mínu mati er að þjónusta við þennan hóp hefur verið bætt til muna og vandinn orðið sýnilegri.“

Ítarlegt viðtal er við Kristínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »