Þöggun og ótti innan kirkjunnar

Sr. Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur í Ólafsvík.
Sr. Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur í Ólafsvík.

„Í raun má fullyrða að þjóðkirkjan eins og við þekkjum hana sé ekki til lengur. Það ríkir þöggun og ótti innan kirkjunnar og allt ber að sama brunni; kirkjustjórnin vill hafa alræðisvald yfir prestum og sóknum og frelsi boðunar er alvarlega ógnað. Því getum við ekki unað.“

Þetta eru stór orð en séra Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalli, stendur við þau. Hann segir hratt hafa sigið á ógæfuhliðina hjá kirkjunni á síðustu árum og getur ekki lengur orða bundist. 

„Ég hef í raun þagað alltof lengi af ótta við að einhver skömm kæmi til með að falla á kirkjuna. Ég tek því skýrt fram að ég er ekki að gagnrýna kirkjuna sem slíka, heldur stjórn hennar. Okkur ber að lýsa upp það sem er í myrkrinu og ef einhver stofnun í samfélaginu á að þola að ljósinu sé beint að henni þá er það kirkjan. Þess vegna stíg ég fram sem uppljóstrari.“

– Hvernig heldurðu að því verði tekið?

„Vel af þeim sem horfa á málið úr sömu átt og ég, það er prestum og sóknarnefndum. Kirkjustjórnin mun á hinn bóginn taka þessu illa. Ég veit hvernig hún tekur á mönnum sem stinga á kýli. Þess utan hefur kirkjustjórnin engan áhuga á því að vernda sitt starfsfólk, eins og dæmin sanna.“

Tómlæti og sinnuleysi

Óskar Ingi segir framkomu kirkjustjórnarinnar einkennast af tómlæti og sinnuleysi í garð presta sem sé algjört. „Við skiptum engu einasta máli og engin ástæða til að hafa samráð við okkur eða sóknirnar. Réttindi okkar eru að engu höfð, ef það hentar. Það er engin leið að skilja þessa framkomu öðruvísi. Er undarlegt að þetta ástand ræni mann gleðinni?“

Hann segir ástandið innan kirkjunnar með þeim hætti að dregið hafi mjög af fleiri prestum og sóknarnefndarfólki. „Nýlega sagði sóknarnefndarformaður á héraðsfundi Vesturlandsprófastsdæmis að væri hann ekki svona trúaður væri hann löngu búinn að segja sig úr þjóðkirkjunni. Þögn fundargesta í kjölfarið sagði mér að margir hefðu íhugað það sama. Sjálfur hef ég misst marga góða sóknarnefndarmenn gegnum árin vegna þess að þeir hafa gefist upp á þessum vinnubrögðum kirkjustjórnarinnar. Sömu sögu er að segja víða um land. Vandinn er í grunninn þríþættur: Heimamenn skipta engu máli, ekkert samtal fer fram og ekki er hlustað á rök og einræðistilburðir hafðir í frammi og það með sjálft fjöreggið, kirkjuna. Ég er ekki einn um þessa skoðun, ég hef talað við marga sem eru mér sammála, bæði presta og fólk í sóknarnefndum. Ég hef heyrt menn spyrja hvort söfnuðir geti sagt sig úr þjóðkirkjunni og veit til þess að einn burðugur söfnuður hið minnsta hefur rætt það mál alvarlega og skoðað að starfa sem fríkirkja.“

Óskar Ingi tekur skýrt fram að með gagnrýni sinni sé hann ekki að ráðast á persónur, heldur kirkjustjórnina sem heild, það er kirkjuþing, kirkjuráð, biskupafund og Biskupsstofu. „Gagnrýni mín nær til þessara aðila. Þarna er margt prýðisgott fólk að finna og ég er ekki að tala um persónurnar, heldur verkin,“ segir hann. 

Sjálfur á Óskar Ingi tvö ár eftir af sínum skipunartíma. Hvað sér hann fyrir sér gerast að þeim tíma liðnum?

„Biskup vill sameina meira og minna öll prestaköll á landinu, þvert á vilja heimamanna, og það mun hafa í för með sér fækkun á prestum sem aftur þýðir að þjónustan kemur til með að verða minni og verri og úr tengslum við söfnuðina í landinu. Þessi tillaga getur komið til framkvæmdar hvenær sem er; öxin hangir yfir okkur og hefur haft lamandi áhrif á starfið í sóknunum. Gegn þessu hef ég barist og nái það fram að ganga verður mér varla stætt á því að starfa áfram hér í kerfi sem ég hef hafnað.“

Frá prestastefnu. Sr. Óskar Ingi sakar yfirstjórn kirkjunnar um ólýðræðisleg …
Frá prestastefnu. Sr. Óskar Ingi sakar yfirstjórn kirkjunnar um ólýðræðisleg vinnubrögð. Ómar Óskarsson


Getur ekki starfað lengur

– Ertu að segja að þú munir láta af prestskap?

„Já, ég er að segja það. Ég get ekki starfað lengur í kirkjunni, eins og fyrir henni er komið, og verði ekki breytingar á næstu tveimur árum verð ég að hætta og gefa þannig upp á bátinn köllun mína og starfið sem mig hefur alla tíð dreymt um. Ég ákvað fjögurra ára gamall að ég ætlaði að verða prestur. Þetta er auðvitað ekki léttvæg ákvörðun, ekkert frekar en að koma í þetta viðtal. En ég ber hag kirkjunnar minnar fyrir brjósti og þess vegna stíg ég fram.“

– Hvað þarf að breytast til að þér snúist hugur?

„Vinnubrögðin og afstaða kirkjustjórnarinnar til safnaða. Fara þarf að lögum og reglum og uppræta myrkur og ómenningu. Láta þarf af einræðistilburðum og hætta að tala um þegna og annað þaðan af verra. Mikilvægt er að lyfta grasrótinni upp og láta hana skipta máli að nýju. Kirkjustjórnin á að gera prestum og söfnuðum starfið auðveldara en ekki vinna á móti þeim. Haldi fram sem horfir verður ekki mikið eftir af kirkjunni á Íslandi.“

Óskar Ingi kveðst hafa gert allt sem í hans valdi stendur til að knýja á um breytingar innan frá en nú hafi hann gefist upp. „Þess vegna legg ég þetta núna í hendur almenns safnaðarfólks og íslensku þjóðarinnar allrar. Þetta er okkar kirkja. Endurheimtum hana!“

Ítarlega er rætt við sr. Óskar Inga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »