Tveir útskrifaðir af gjörgæslu

Einn liggur nú á gjörgæslu með kórónuveiruna.
Einn liggur nú á gjörgæslu með kórónuveiruna. Ljósmynd/Landspítali/Þorkell Þorkelsson

Einn liggur nú á gjörgæslu Landspítalans með kórónuveiruna, en það er tveimur færri en voru þar í gær. Sá sem liggur eftir er í öndunarvél.

Þá eru 56 sjúklingar inniliggjandi á sjúkrahúsi, fimm sjúklingum fleiri en í gær. 40 starfsmenn Landspítala eru í einangrun vegna veirunnar og 322 í sóttkví.

Þetta kemur fram á vef spítalans í dag, en þar er einnig ítrekað að Landspítali starfi nú á neyðarstigi og að viðbragðsáætlun vegna farsótta hafi verið virkjuð að fullu.

Einnig kemur fram að farsóttanefnd hafi tekið þá ákvörðun að skima alla sjúklinga sem flytjast frá Landspítala og á aðrar stofnanir, að undanskildum sjúklingum sem fara milli Fossvogs og Hringbrautar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert