Fækkun krabbameinsgreininga vegna Covid-19

Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins.
Höfuðstöðvar Krabbameinsfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Bráðabirgðaathugun á fjölda krabbameinsgreininga sem skráð voru í Krabbameinsskrá í mars, apríl og maí 2020 leiðir í ljós 14-18% fækkun borið saman við sömu mánuði árin 2017-2019. Fjölgun var á krabbameinsgreiningum í júní og júlí en í september voru aftur færri krabbamein skráð.

Ætla má að um sé að ræða áhrif vegna Covid-19 vegna skerðingar á starfsemi og nýtingu heilbrigðisþjónustu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Bráðabirgðatölur úr Krabbameinsskrá Íslands, sóttar í október 2020.
Bráðabirgðatölur úr Krabbameinsskrá Íslands, sóttar í október 2020.

Á öllum Norðurlöndunum eru vísbendingar um svipaða stöðu, en hjá Norrænu krabbameinssamtökunum er grannt fylgst með áhrifum Covid-19. Óttast er að við blasi svokölluð „meðferðarskuld“ þegar Covid-19 léttir, þar sem krabbamein greinist síðar og á alvarlegra stigi en ella.

Krabbameinsfélagið hvetur fólk sem finnur fyrir einkennum að hika ekki við að leita læknis svo meðferð geti hafist sem fyrst sé um krabbamein að ræða.

mbl.is