Pósturinn fær ekki að leggja í stæði fatlaðra

Frá Ráðhústorginu á Siglufirði.
Frá Ráðhústorginu á Siglufirði.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur hafnað beiðni Íslandspósts um að fá að nýta bílastæði fyrir fatlaða framan við afgreiðslu pósthússins í Aðalgötu á Siglufirði fyrir vörulosun. Í erindi sem Íslandspóstur sendi bænum segir að vörulosun fari fram tvisvar á dag í um 10-15 mínútur í hvert skipti.

Í snaggaralegum rökstuðningi nefndarinnar segir að ekki sé hægt að fallast á að leyfa vörulosun úr stæði sem er „P-merkt“. Umferðarlög séu skýr hvað það varðar.

Fyrst var greint frá málinu á héðinsfjörður.is, fréttavef í Fjallabyggð. Þar segir að Pósturinn hafi átt í vandræðum með að koma sendibíl fyrir til vörulosunar eftir að fyrirtækið flutti í nýtt húsnæði í í Aðalgötunni. „Það er þó enginn skortur á bílastæðum við Ráðhústorgið og ætti það ekki að vera vandamál að losa vörur póstsins þaðan,“ segir þar enn fremur.

mbl.is