„Ríkisstarfsmenn halda auðvitað sínu“

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru auðvitað langflestir sem finna ekki fyrir neinu. Allir fá sinn lífeyri og ríkisstarfsmenn halda auðvitað sínu á meðan einkageirinn blæðir. Ég er mjög ósáttur við þessar aðgerðir,“ segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. Vísar hann þar til aðgerða vegna faraldursins sem kynntar voru á blaðamanna­fundi rík­is­stjórn­ar­inn­ar og þríeyk­is­ins í Hörpu í dag. 

Aðspurður segir Brynjar að erfitt sé að taka undir að um sameiginlegt verkefni sé að ræða. Annars vegar sé hópur fólks sem tapi miklu á meðan aðrir haldi öllu sínu. „Fólk er að tapa lífsviðurværinu á meðan hagkerfið er svona stopp. Á hinn bóginn halda ríkisstarfsmenn öllu sínu. Ég hef lagt til að þeir leggi sitt af mörkum og lækki um 10% í launum. Það tekur hins vegar enginn á þessu því þannig geturðu tapað atkvæðum,“ segir Brynjar. 

„Ekki horft á stóru myndina“

Mikið hefur verið lagt upp úr því að greina fólk og nýta sóttkví sem úrræði í baráttunni gegn veirunni. Brynjar botnar lítið í aðgerðunum. „Það var alltaf vitað að þessi veira væri komin til að vera. Í stað þess að undirbúa okkur undir það er allur mannskapur nýttur í að elta fólk sem hefur brotið af sér og skima allt og alla. Það virðist sem það eigi að eyða veirunni úr samfélaginu sama hvað það kostar. Það er ekki verið að horfa á stóru myndina.“

Brynjar hefur miklar áhyggjur af afleiðingum lokunar hagkerfisins. „Hvaða afleiðingar mun þetta hafa? Fyrir utan peninga hvað þýðir þetta í lýðheilsumálum næstu ár? Við erum með endalaust af öndunarvélum og sjúkrastofnunum sem ekkert er verið að nota. Þetta eru hins vegar ekki vinsæl sjónarmið virðist vera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert