„Gætum verið samhæfðari í viðbrögðum“

Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, segir leiðtogafund norrænu forsætisráðherranna hafa …
Silja Dögg Gunnarsdóttir, forseti Norðurlandaráðs, segir leiðtogafund norrænu forsætisráðherranna hafa farið vel fram. Ljósmynd/norden.org

„Auðvitað er gott samstarf á milli Norðurlandanna en við ræddum um að við gætum verið samhæfðari í viðbrögðum við vágestum eins og til dæmis faraldri,“ segir Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknar og forseti Norðurlandaráðs.

Faraldurinn var í brennidepli á leiðtogafundi norrænu forsætisráðherranna, sem fram fór á þriðjudaginn rafrænt, en þingið hefði átt að fara fram 26. og 27. október síðastliðinn í Hörpunni.

Ýmsir kostir fylgdu því að hafa ráðstefnuna rafrænt. Mæting ráðherranna var sögulega góð og fór fundurinn fram á skilvirkan hátt. 

„Það var full mæting hjá forsætisráðherrum Norðurlandanna og síðan kom  ramkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna (António Guterres) og hitti forsætisráðherrana og forsætisnefnd Norðurlandaráðs. Hann svaraði spurningunum mjög vel og þetta var ekki afgreiðslufundur hjá honum. Yfir það heila gekk þetta mjög vel,“ segir Silja, enda séu þingmenn séu nú orðnir nokkuð vanir fjarfundunum.

Ráðfærðu sig misvel við nágrannaríki varðandi lokanir

Segir Silja að viðbrögð við faraldrinum, eins og landamæralokanir Norðurlandanna, hafi verið til umræðu, þar sem ríkin brugðust misjafnlega við og ráðfærðu sig misjafnlega vel við ráðherra nágrannalandanna.

„Rauði þráðurinn á öllum fundunum var náttúrulega faraldurinn, hvernig við brugðumst við þessu, hefðum getað brugðist við og hvernig við sjáum framtíðina. Auðvitað er mikið samstarf á milli Norðurlandanna en við gætum verið samhæfðari í viðbrögðum við faraldrinum,“ segir hún. Spurð hvort hún eigi við landamæralokanir segir Silja:

„Sérstaklega varðandi landamærin. Þegar faraldurinn byrjaði fyrst þá brugðust ríkin við á mismunandi hátt og það kom sér verulega illa fyrir almenning á Norðurlöndum víða, svo sem þá sem sækja nám og þjónustu þvert á landamæri,“ segir Silja.

Brunabúnaður ríkjanna var einnig til umræðu, í ljósi skógarelda, auk netöryggismála þar sem netárásir hafa færst í vöxt í faraldrinum.

mbl.is