11 þúsund krefjast að fjölskylda fái dvalarleyfi

Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í máli fjölskyldunnar.
Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms í máli fjölskyldunnar. mbl.is/Hallur Már

Tæp ellefu þúsund manns hafa tekið þátt í undirskriftasöfnun þar sem krafist er að senegölsk fjölskylda sem hefur búið hérlendis í tæp sjö ár fái dvalarleyfi.

„Við verðum að standa saman og krefjast þess að þeim Regine Martha og Elodie Marie ásamt foreldrum sínum þeim Bassirou og Mahe verði ekki vísað úr landi út í óvissuna. Þær eru 3 og 6 ára og eru fæddar hér og þekkja ekki neitt annað,“ segja aðstandendur undirskriftasöfnunarinnar.

„Það myndi valda þeim óbærilegum skaða að rífa þær upp úr sínu umhverfi og senda til ókunnugs lands þar sem þeim er hætta búin. Nú verður að skora á stjórnvöld að veita þeim dvalarleyfi á Íslandi. Það verður að brýna stjórnvöld til að hafa hagsmuni barna að leiðarljósi við slíkar ákvarðanir,“ segja aðstandendur.

Mál þeirra í kerfinu í langan tíma

Elín Árnadóttir, lögmaður fjölskyldunnar, segir í samtali við RÚV að hjónin hafi sótt um atvinnu- og dvalarleyfi er þau fluttu til landsins árið 2013. „Og það er auðvitað meira en að segja það fyrir fólk utan EES að fá slíkt,“ segir hún. Þegar þeim var synjað um dvalarleyfi átti að senda þau úr landi. Þá var Mahe kasólétt og brottvísuninni því frestað. 

Þá sóttu þau um dvalarleyfi af mannúðarástæðum árið 2015 og var því synjað í október árið eftir. Árið 2017 sóttu þau um alþjóðlega vernd og var umsókninni hafnað í janúar 2018. Synjunin var kærð til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana í mars 2018. Sótt var um frestun réttaráhrifa og frestunin veitt. Málið var kært til héraðsdóms og fór þaðan til Landsréttar, sem staðfesti úrskurðinn fyrir rúmri viku, að því er RÚV greinir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert