Björn Teitsson til Krabbameinsfélagsins

Björn Teitsson hefur nú þegar hafið störf sem kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.
Björn Teitsson hefur nú þegar hafið störf sem kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins.

Krabbameinsfélagið hefur nú ráðið Björn Teitsson sem nýjan kynningarstjóra félagsins. Björn hefur víðtæka reynslu af kynningarmálum og miðlun en hann var m.a. upplýsingafulltrúi Rauða krossins á Íslandi og fréttamaður á fréttastofu RÚV.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

„Síðastliðin tvö ár hefur Björn verið í mastersnámi í evrópskum borgarfræðum í Weimar í Þýskalandi. Áður hafði hann lokið BA-gráðu í sagnfræði og þýsku, auk diplómaprófs í menningarfræðum, alþjóðasamskiptum og CPLF-prófs í frönsku,“ segir í tilkynningu. 

Björn, sem hefur nú þegar hafið störf, mun sinna samskiptum við fjölmiðla og upplýsingagjöf og miðlun fyrir hönd Krabbameinsfélagsins með margvíslegum hætti. 

Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins, er ánægð með liðstyrkinn, að því er segir í tilkynningunni.

„Björn er með fjölbreytta reynslu og menntun sem mun nýtast félaginu vel í komandi verkefnum. Hann kemur inn í öflugan hóp starfsmanna félagsins, sem vinnur ötullega að markmiðum félagsins, sem eru að fækka nýjum tilfellum krabbameina, að draga úr dauðsföllum af völdum krabbameina og auka lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein og aðstandenda þeirra,“ er haft eftir Höllu. 

Björn, sem er 39 ára, er í sambúð með Unu Kristínu Jónsdóttur textíllistakonu.

„Hann á sér margvísleg áhugamál á borð við matarmenningu og matreiðslu, skipulags- og samgöngumál og alls konar nytsamlegan sem ónytsamlegan fróðleik um sögu og listir. Skemmtilegast af öllu þykir Birni þó að spila körfubolta eða fara í göngutúra með labradorhundinum Esju,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert