Tvítugir Íslendingar safna milljónum á Kickstarter

Sindri Leví Ingason og Amelija Prizginaite, hönnuðir borðspilsins Reckless Sloths.
Sindri Leví Ingason og Amelija Prizginaite, hönnuðir borðspilsins Reckless Sloths. Ljósmynd/RecklessGames

Á aðeins 20 dögum hefur hinum tvítuga Sindra Leví Ingsyni og kærustu hans og jafnöldru, Ameliju Prizginaite, tekist að safna tæplega 3,5 milljónum króna (25 þúsund bandaríkjadölum) á vefsíðunni Kickstarter, en þar hafa þau auglýst eftir styrkjum til þess að ráðast í framkvæmd á nýju borðspili.

Á Kickstarter býðst fólki að styrkja hugmyndir svo að þær megi verða að veruleika. Í tilfelli Sindra og Ameliju eignast hver sá sem styrkir þau eintak af spilinu sem fyrirhugað er að hefja framleiðslu á.

Spilið sem um ræðir heitir Reckless Sloths (skeytingarlaus letidýr) og gengur út á að bjarga letidýrum frá hinum ýmsu hættum, sem margar hverjar eru vægast sagt undarlegar. Finna má líkindi með spilinu og öðru spili sem einnig á árangur sinn Kickstarter að þakka, Exploding Kittens. Þegar hugmyndin að framkvæmd þess heimsfræga spils safnaðist meira fé en nokkurt annað borðspil hefur safnað. 

Lengi verið draumur

Sindri segir í samtali við mbl.is að hann hafi alltaf langað að búa til spil. Amelija kærasta hans kom honum þó af stað.

„Síðan við byrjuðum saman höfum við haft stórar hugmyndir um að gera eitthvað svona. Ég hef alltaf viljað búa til spil og hef talað um þetta lengi en það var Amelija sem sagði mér bara að slá til. Þannig að við fórum bara á fullt.“

Sindri segist eiga von á að söfnunin nái hámarki sínu á næstu dögum.

„Nú eru tveir dagar eftir. Við söfnuðum, að mig minnir, um 13 þúsund dollurum strax á fyrsta degi. Þessar safnanir virka í rauninni þannig að fyrst gengur rosalega vel og síðan aftur á síðustu tveimur dögum. Fylgjendur okkar á Kickstarter eru látnir vita þegar aðeins tveir dagar eru eftir af söfnuninni og þá slá margir til,“ segir Sindri.

Letidýrin geta lent í ýmsum undarlegum háska. Hér sést eitt …
Letidýrin geta lent í ýmsum undarlegum háska. Hér sést eitt þeirra hlaupa undan núðlum. Ljósmynd/RecklessGames

Læra af því að reka sig á hindranir

Það eru einna helst Bandaríkjamenn sem stutt hafa hugmynd Sindra og Ameliju. Þó að vel gangi hefur þó ekki gengið þrautalaust að ná árangri.

„Við erum búin að reka okkur á alls konar hindranir sem við höfum síðan bara lært af. Til dæmis má ekki bjóða Bandaríkjamönnum að styðja við okkur nema að við séum með skráð fyrirtæki í Bandaríkjunum. Við þurftum því að stofna fyrirtæki þar, sem við og gerðum í Delaware, RecklessGames – í höfuðið á spilinu sjálfu.“

Þó að hugmyndin sé íslensk þá er ekki þar með sagt að Íslendingar séu þeir einu sem styrkja þá sem að baki henni standa. Á heimasíðu söfnunarinnar má sjá að rúmlega 600 manns hafa styrkt Sindra og Ameliju. Þar af eru þó einungis um 40 Íslendingar.

„Þetta er aðallega bara fólk úr fjölskyldunni sko,“ segir Sindri og hlær.

„Annars er fólk líka frá Bretlandi og fleiri stöðum sem styrkja okkur, langflestir þó frá Bandaríkjunum.“

Sindri segir að spilið sæki innblástur til hins fræga Exploding …
Sindri segir að spilið sæki innblástur til hins fræga Exploding Kittens en sé þó alls ekki eins. Ljósmynd/RecklessGames

Gæðastimpill frá þeim bestu

Ætla má að hugmyndin hafi hlotið mikinn og góðan hljómgrunn meðal spilaáhugamanna um heim allan. Sindri segist vona að ekkert lát verði á þeim stuðningi og gerir ráð fyrir að söfnunarupphæðin tvöfaldist núna þegar söfnunin nær hámarki, enda sé ákveðinn gæðastimpill á spilinu sjálfu, Reckless Sloths.

„Það er semsagt allskonar fólk í þessum geira búið að fá að prófa og hefur veitt ansi góðar umsagnir. Svo til að toppa þetta allt saman þá keypti framleiðandi Exploding Kittens eintak af okkar spili. Það var, já, bara alveg magnað að frétta af því.“

mbl.is