4 smit innanlands

AFP

Alls greindust fjögur kórónuveirusmit innanlands í gær. Tveir þeirra voru í sóttkví en tveir fyrir utan.

Nú eru 233 í einangrun og hafa ekki verið jafn fáir síðan um miðjan september. Í sóttkví eru 348 en 816 í skimunarsóttkví. Á sjúkrahúsi eru 52 sjúklingar með Covid-19 og af þeim eru fjórir á gjörgæslu.

Aðeins 37 börn yngri en 18 ára eru með Covid-19 í dag. Flest smit eru meðal fólks á sextugsaldri eða 42. Smitin eru eins og áður flest á höfuðborgarsvæðinu eða 158 en á Norðurlandi eystra eru þau 43 talsins. Ekki hefur fjölgað smitum á Austurlandi en samkvæmt covid.is er eitt smit í fjórðungnum.

Af þeim sem greinst hafa með Covid-19 á Íslandi eru 26 látnir, þar af 16 í þriðju bylgju faraldursins. Af þeim eru 19 yfir áttrætt. 

Nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikurnar innanlands er nú 50,7 en 8,5 á landamærunum. Beðið er niðurstöðu úr einni mótefnamælingu á landamærunum en alls voru tekin 205 sýni þar í gær. Innanlands voru sýnin rúmlega 700 talsins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert