Slagsmál, þjófnaðir, líkamsárásir og flugeldar

mbl.is/Eggert

Nóttin var erfið hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og fjölmörg mál sem komu á hennar borð. Má þar nefna slagsmál, þjófnaði, líkamsárásir og flugeldum skotið á loft. Alls voru skráð 62 mál í kerfi lögreglunnar frá klukkan 23 til klukkan 5 í morgun.

Lögreglan á lögreglustöð 1. sem sinnir verkefnum á Seltjarnarnesi, miðbæ, Vesturbæ og Austurbæ að Elliðarám, þurfti að sinna fjölmörgum málum vegna hávaða og ónæðis ásamt þjófnaðarmálum og ölvunarmálum. Lögregla aðstoðaði einnig sjúkralið vegna slysa.

Lögreglan á lögreglustöð 2 sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi þurfti einnig að sinna útköllum vegna samkvæmishávaða, líkamsárása sem og þjófnaðar. Talsvert var um minniháttar mál að auki, að því er segir í dagbók lögreglunnar.

Svipaða sögu er að segja af lögreglunni við lögreglustöð 3, það er Kópavogi og Breiðholti. Lögregla sinnti útköllum vegna flugelda sem skotið var upp í Kórahverfi ásamt því að maður var handtekinn í umdæminu grunaður um þjófnað og önnur brot. Tilkynnt var um slagsmál ásamt því að fjölmörgum hávaðakvörtunum var sinnt auk annarra minniháttar mála.

Lögreglan á lögreglustöð 4, sem sinnir  Árbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Norðlingaholti, Mosfellsbæ og Kjósarhreppi stöðvaði ökumann sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Sá var einnig sviptur ökuréttindum. Þá var einnig tilkynnt um eignaspjöll ásamt öðrum minniháttar málum í umdæminu í nótt.

mbl.is