Bóluefni tilefni til hóflegrar bjartsýni

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson forseti telur að Íslendingar geti leyft sér að horfa hóflega bjartsýnum augum á framtíðina, sérstaklega þar sem bóluefni við kórónuveirunni sé í augsýn og aðgerðir virðist vera að virka. 

„Þolinmæði þrautir vinnur allar. Þennan vísdóm höfum við átt í þessu landi í yfir þúsund ár og hefur þó gengið á ýmsu,“ skrifar Guðni í pistli á Facebook.

„Nú getum leyft okkur að horfa hóflega bjartsýn fram á veg. Varnir okkar gegn farsóttinni virðast virka, bóluefni er í augsýn. Mikið vona ég að við höldum áfram á réttri leið, sinnum okkar eigin sóttvörnum, fylgjum tilmælum um tveggja metra mannhelgi, notum grímur þar sem við á og höldum þetta út saman. Senn getum við svo notað það einingarafl til að snúa vörn í sókn. Þá verður aftur feiknakraftur í mannlífinu öllu. Við verðum snögg að komast aftur á skrið.“

Í pistlinum fer Guðni sömuleiðis yfir verkefni liðinnar viku. Þar má t.d. nefna fund hans við Egil Levits, forseta Lettlands. 

„Við ræddum um baráttu Íslendinga og Letta við veiruna skæðu, nauðsyn alþjóðlegs samstarfs í þeim efnum og mögulega þróun mála á næstunni,“ skrifar Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert