Ríflega tuttugu ára jólahefð brotin

Jólatréð var sótt í gærmorgun. Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar …
Jólatréð var sótt í gærmorgun. Steinar Björgvinsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og ræktunarstjóri Þallar, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Ingibjörg Sigurðardóttir garðyrkjustjóri Hafnarfjarðarbæjar. Ljósmynd/Hafnarfjarðarbær

Ríflega tuttugu ára jólahefð Hafnarfjarðarbæjar var brotin í gærmorgun. Frá árinu 1998 hefur bænum borist jólatré frá Cuxhaven, vinabæ Hafnarfjarðar, í Þýskalandi, sem sett er upp á Thorsplani í Hafnarfirði. Breyting verður á því í ár, en jólatréð kemur nú beint frá Skógrækt Hafnarfjarðar. Þetta kemur fram á vef Hafnarfjarðarbæjar. 

Er kórónuveirufaraldrinum þar um að kenna, en vinir Hafnarfjarðar í Cuxhaven hafa verið svo framtakssamir að gróðursetja tré í Skógrækt Hafnarfjarðar í svokölluðum Cuxhaven-lundi í heimsóknum sínum til Íslands allt frá árinu 1998. Formlegu vinasambandi bæjanna var komið á fyrir rúmum þrjátíu árum. 

Öll þessi ár hefur Cuxhaven sent íbúum Hafnarfjarðar jólatré og fylgt sendingu eftir með heimsókn fyrstu helgina í aðventu. Engin sendinefnd verður viðstödd í ár, en hún mun þess í stað fylgjast með tendruninni í beinu streymi. 

Hefð hefur verið fyrir því að jólatréð á Thorsplani komi frá vinabæjum Hafnarfjarðar. Lengi vel frá Frederiksberg í Danmörku en nú hin síðari ár frá Cuxhaven.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert