Fagna því að bótaskylda sé viðurkennd

Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins harmar mjög mál konunnar sem fékk rangar niðurstöður …
Framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins harmar mjög mál konunnar sem fékk rangar niðurstöður í skimun. Hún segir málið hafa lagst þungt á starfsmenn sem eru miður sín. Árni Sæberg

„Við fögnum því að tryggingafélagið hafi viðurkennt bótaskyldu. Það skiptir máli að öll svona mál fái rétta afgreiðslu,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Hún segir að mál konunnar sem fékk rangar niðurstöður í skimun fyrir leghálskrabbameini hafi farið í viðeigandi farveg.

Í fréttum RÚV í gær kom fram að tryggingafélag Krabbameinsfélagsins hafi viðurkennt bótaskyldu konu sem fór í skimun fyrir leghálskrabbameini árið 2018. Hún veiktist alvarlega af krabbameini í ár og í ljós kom að niðurstöður sem hún fékk úr skimun væru rangar.

Síðar kom í ljós að um mistök starfsmanns Leitarstöðvar Krabbameinsfélagsins væri að ræða. 

„Allar heilbrigðisstofnanir og heilbrigðisstarfsmenn sem starfa sjálfstætt þurfa að hafa ákveðnar tryggingar og ef það verða mistök sem tjón hlýst af, þá á fólk bótarétt samkvæmt sjúklingatryggingu,“ segir Halla. 

Skimanir veita ekki fullkomna vernd

Aðspurð um önnur mál sem kvartað hefur verið yfir hjá Krabbameinsfélaginu segir Halla þau mjög ólík. Tekið skal fram að félagið viðurkenndi mistök í ofangreindu máli og tilkynnti strax til landlæknis.

„Það hafa borist kvartanir sem eru teknar fyrir hjá okkur og við skilum greinagerðum þar að lútandi.[...] þær berast til yfirlæknis leitarstöðvarinnar og þær eru mjög ólíkar.“

Halla segir engar vísbendingar um að mistök hafi ítrekað verið gerð við skimanir en bendir á að skimanir veiti ekki fullkomna vernd. 

„Í tilfelli leghálskrabbameina er hægt að greina forstig krabbameinsins, hún er ekki gerð til þess að greina krabbameinin sjálf, heldur til að grípa frumubreytingar sem síðar geta þróast í að verða krabbamein. [...] Sýnt hefur verið fram á að með reglubundinni skimun má fækka leghálskrabbameinum um 90% en það felur í sér að skimun nær ekki að grípa allt og því geta konur fengið krabbamein þrátt fyrir skimun. Það þýðir samt ekki að það hafi orðið mistök, eðli skimunar er bara þannig,“ segir hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert