Þarf að fara í sóttkví þrátt fyrir mótefni

Íslendingur búsettur í Brussel hefur óskað eftir að fá að …
Íslendingur búsettur í Brussel hefur óskað eftir að fá að fara í mótefnamælingu við heimkomu en hefur fegnið neitun. Eggert Jóhannesson

Íslendingur sem búsettur er í Brussel og fékk Covid-19 fyrir tæpum tveimur mánuðum fær hvorki leyfi til þess að sleppa við sóttkví né fara í mótefnamælingu við heimkomu. Hann á bókað flug heim 5. desember en breytt verklag vegna viðtöku vottorða tekur gildi 10. desember.

Maðurinn sem um ræðir, en hefur óskað nafnleyndar, óskaði eftir leyfi landlæknis til að fá að fara í mótefnamælingu við heimkomu vegna þess að hann hefur staðfest skjöl frá lækni í Brussel um að hann hafi greinst jákvæður fyrir Covid-19 í byrjun október.

Hægt að framvísa vottorðum frá 10. desember

Stjórnvöld hafa tilkynnt að 10. desember verði byrjað að taka við vottorðum frá EES-löndum um fyrri sýkingu.

Maðurinn fékk þau svör frá embætti landlæknis að það væri ekki í samræmi við reglur um sóttkví að mæta á rannsóknarstofu í sóttkví, sem hann þarf vissulega að fara í við heimkomu.

Hann bendir á í tölvupóstsamskiptum sínum við embætti landlæknis að „sóttkví sé íþyngjandi (og í raun frelsisskerðandi) aðgerð sem á eingöngu að grípa til þegar það er nauðsynlegt og til þess fallið að ná tilsettum markmiðum, og að það sé ekki hægt að grípa til minna íþyngjandi aðgerða til að ná þeim markmiðum“.

Segir hann í samtali við mbl.is að hann falli algjörlega á milli kerfa þar sem hann má ekki fara í mótefnamælingu við heimkomu (eins og þeir sem greinast jákvæðir við landamærin) og neyðist til að fara í sóttkví en svo er einnig bannað að fara í mótefnamælingu í sóttkví.

Sér sig knúinn til að skjóta ákvörðun til yfirvalda

„En, verði þessu [erindi um undanþágu] svarað neitandi sé ég mig tilneyddan til að skjóta þessari ákvörðun, um að ég sé skyldugur í sóttkví og megi ekki fara í mótefnamælingu, til heilbrigðisráðuneytisins, umboðsmanns Alþingis og/eða eftirlitsstofnunar EFTA. Þetta er enda, eins og ég hef áður komið á framfæri, ekki í neinu samræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar, og er takmörkun á ferðafrelsi,“ segir maðurinn í lok tölvupóstsamskipta sinna við embætti landlæknis.

Aðspurður hvort til standi að fresta heimkomu til 10. desember segir hann það ólíklegt enda sé það að vera í Brussel þessa dagana eins og að vera í sóttkví á Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert