Harpa fái aukið fé vegna heimsfaraldurs

Lagt er til að fjárheimild til menningarstofnana verði aukin um 270 milljónir króna og greiðsluheimild um 297 milljónir króna því til viðbótar í nýjum fjáraukalögum.

Lagt er til að auka fjárheimild um 150 milljónir króna vegna áhrifa heimsfaraldursins á rekstur Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúss í Reykjavík, samkvæmt nýju fjáraukalagafrumvarpi.

Um er að ræða 54% hlut ríkisins. Til viðbótar er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg leggi fram 46%, eða 128 milljónir króna. 

Í öðru lagi er lagt til að fjárheimild verði aukin um 70,2 milljónir króna vegna rekstrar- og framkvæmdakostnaðar vegna faraldursins hjá ýmsum menningarstofnunum, nánar tiltekið Minjastofnun Íslands, Íslenska dansflokknum og Kvikmyndasjóðnum.

Í þriðja lagi er lagt til að veita 48,9 milljónum króna vegna aukins rekstrar- og framkvæmdakostnaðar hjá Þjóðleikhúsinu vegna faraldursins. Því til viðbótar er gert ráð fyrir að auka greiðsluheimild stofnunarinnar um 297 milljónir króna vegna tapaðra rekstrartekna.

mbl.is