Fagnaðarefni að fá flugvirkja til vinnu

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar.
Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar. Árni Sæberg

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir það fagnaðarefni að flugvirkjar muni koma til vinnu í kjölfar þess að ríkisstjórnin ákvað að setja lög á verkfall flugvirkja. Hann vonast til þess að vélarnar verði komnar í standhæft ástand á sunnudag. 

„Það er auðvitað viss vonbrigði að ekki hafi náðst samkomulag. En þegar allt er komið í skrúfuna er eins gott snögglega sé skorið úr málum. Þessi niðurstaða er auðvitað fagnaðarefni fyrir okkur og við getum vonandi komið þyrlunum í flughæft stand sem fyrst,“ segir Georg. 

Georg hefur væntingar til þess að þyrlan verði komin í stand innan tveggja sólarhringa eftir að flugvirkjar koma til vinnu.  „Jafnvel á sunnudag,“ segir Georg. 

Eins og sakir standa er varðskipið Týr til taks sunnan af Vestmannaeyjum. Að auki eru séraðgerðadeild sprengjueyðingardeildar Landhelgisgæslunnar til taks. Er hún með aðsetur í Keflavík og Reykjavík. Er hún bæði útbúin öflugum bílum og hraðbátum. „En fyrst og fremst treystum við á björgunarsveitir og lögreglu þar til þyrlurnar verða til taks,“ segir Georg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert